Akureyri komi sem best út úr öldudalnum

Stoltur afi! Hermann Jón Tómasson, nýr bæjarstjóri á Akureyri, ásamt …
Stoltur afi! Hermann Jón Tómasson, nýr bæjarstjóri á Akureyri, ásamt dóttur sinni og afastelpu sem voru á bæjarstjórnarfundinum þegar hann tók við embættinu. Dóttir hans heitir Harpa og litla stúlkan, sem er fjögurra mánaða, Dagbjört Bára Hallgrímsdóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bæjarstjóraskipti urðu á Akureyri á bæjarstjórnarfundi síðdegis. Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar, tók þá við embættinu af Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, sem gegnt hefur embættinu undanfarin tvö ár.

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn gagnrýndu á fundinum að meirihlutaflokkarnir skuli skipta um bæjarstjóra við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Tóku raunar skýrt fram að gagnrýnin beindist ekki að ákveðnum persónum, en við núverandi aðstæður væru breytingar ekki skynsamlegar.

Bæði Hermann Jón og Sigrún Björk sögðu að þegar meirihlutinn var myndaður hefði verið ákveðið að Samfylkingarmaður settist í stól bæjarstjóra síðasta ár kjörtímabilsins og engin ástæða væri til annars en að halda því striki. 

„Við gengum frá ákveðnu samkomulagi við upphaf kjörtímabilsins, það hefur legið fyrir frá upphafi og allir hafa haft nægan tíma til að undirbúa málið. Við höfum unnið þétt saman í þessu starfi þannig að það er ekkert vandamál fyrir mig að taka við. Ég er öllum hnútum kunnugur þannig að þessi breyting á ekki að hafa nein áhrif á starfsemi bæjarins. Það væru rökin gegn breytingunni en hún mun ekki hafa nein áhrif á starfið,“ sagði Hermann Jón við Fréttavef Morgunblaðsins eftir fundinn.

Hermann Jón sagði þó að auðvitað setti hver einstaklingur sitt mark á starf bæjarstjóra og bakgrunnur hans, menntun, reynsla og pólitísku skoðanir myndu vitaskuld hafa áhrif á það hvernig hann tæki á málum sem inn á hans borð bærust. „En á sama tíma byggist þetta meirihlutasamstarf á ákveðnum málefnasamningi sem við erum að reyna að klára eins og við getum. Við erum vissulega að fást við ýmis verkefni sem við völdum okkur ekki en við verðum engu að síður að takast á þvið þau; stóra málið er að tryggja að Akureyri komi vel út úr þessum öldudal sem íslenskt samfélag er í núna.“

Kristján hætti sem forseti

Á bæjarstjórnarfundinum í dag hætti Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður sem forseti bæjarstjórnar. Kristján Þór var bæjarstjóri á Akureyri í rúmlega tvö kjörtímabil; 1998-2002 og aftur 2002-2006 og hélt áfram í starfi þar til í janúar 2007 að hann sagði af sér eftir að hann ákvað að bjóða sig fram í kosningum til Alþingis.

Þegar Sigrún Björk tók við bæjarstjórastólnum varð Kristján forseti bæjarstjórnar í hennar stað. Kristján Þór vildi ekkert um það segja í dag hvort hann myndi í framhaldinu hætta afskiptum af bæjarpólitík.

Gríðarlega skemmtilegt starf

„Það er með ákveðnum trega sem ég hætti því þetta er gríðarlega skemmtilegt starf,“ sagði Sigrún Björk í samtali við Morgunblaðið í dag. „Hver dagur hefur verið ný áskorun þannig að óneitanlega verða þetta viðbrigði en það er umtalsvert verkefni að vera formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar þannig að það verður alveg nóg að gera.“

Sigrún Björk Jakobsdóttir afhendir Hermanni Jóni Tómassyni lyklana að skrifstofu …
Sigrún Björk Jakobsdóttir afhendir Hermanni Jóni Tómassyni lyklana að skrifstofu bæjarstjóra í Ráðhúsi Akureyrar, strax eftir fund bæjarstjórnar í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert