Ekki tilefni til að kyrrsetja eignir

Engar eignir hafa verið kyrrsettar vegna bankahrunsins en fjöldi manna hefur réttarstöðu grunaðra og því hafa skapast lagalegar forsendur til að kyrrsetja eignir. Sérstakur saksóknari segir hinsvegar að ekki hafi þótt tilefni til þess enn sem komið er. 

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að örugglega hefði rannsókn á afbrotum í bankahruninu mátt miða hraðar. Margir spyrji sig af hverju menn hafi ekki verið teknir til yfirheyrslu og eignir þeirra haldlagðar. Verkefnin hafi reynst mikil og stór og það hafi þurft að byggja upp þetta starf. Það sé alltaf vont að þetta dragist. Það geti tapast gögn. Nú sé hinsvegar búið að framkvæma nokkrar húsleitir og allstór hópur manna sé kominn með réttarstöðu grunaðra. Því séu komnar upp þær aðstæður að hægt sé að kyrrsetja eignir. Hann segir Icesave samninginn liðka fyrir rannsókn á bankahruninu þar sem bresk og hollensk stjórnvöld hafi nú lofað að aðstoða við að hafa upp á eignum úr búi Landsbankans.

Dómsmálaráðherra viðraði hugmyndir á ríkisstjórnarfundi í morgun um að efla og styrkja rannsókn sérstaks saksóknara en sagði þó að ekki stæði til að leggja henni til meira fé í bili að minnsta kosti.

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari segir að á síðustu vikum hafi komið í ljós hversu umfangsmikið verkefni er. Í lok mars hafi verið veitt auknu fé í rannsóknina en ekki sé komið í ljós hvort meira þurfi til. Málin virðist þó vera bæði mörg og stór miðað við upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu.

Aðspurður hvort embættið  hafi haft bolmagn til að fara í fullu og öllu að ráðgjöf Evu Joly sagðist hann ekki geta gefið upplýsingar um það, það væru hástrategískar upplýsingar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert