Engin áhrif á vinnu nefndar

Rannsóknarnefndina skipa þau Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, sem er formaður, …
Rannsóknarnefndina skipa þau Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, sem er formaður, og Sigríður Benediktsdóttir. mbl.is/Ómar

„Þetta mál hefur engin áhrif á vinnu nefndarinnar,“ segir Páll Hreinsson, hæstaréttardómari og formaður rannsóknarnefndar Alþingis. Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri FME hefur krafist þess að Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur víki úr rannsóknarnefndinni vegna ummæla í skólablaði Yale-háskóla.

Í viðtali við skólablað Yale-háskóla, þar sem Sigríður starfar við kennslu og fræðistörf, 31. mars er haft eftir henni eftirfarandi: „Mér finnst sem þetta [hrunið innsk. blm.] sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hluta eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu [að hafa] eftirlit með fjármákerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“ Á grundvelli þessara ummæla hefur Jónas Fr. Jónsson krafist þess að Sigríður víki sæti úr nefndinni.

Páll segir rannsóknarnefndina hafa fjallað um málið, nákvæmlega samkvæmt þeim lögum sem nefndin starfar eftir. „Þegar þetta mál kom upp þá ræddum við um grundvöll málsins, sem er hvort þessi tilteknu ummæli Sigríðar [í skólablaði Yale-háskóla innsk. blm.], feli í sér afstöðu um meginorsakir hrunsins og hverjir bera ábyrgð á því. Það er það lögfræðilega álitamál sem við ræddum. Við ræddum alla kostina sem þá voru fyrir hendi. Einn af kostunum sem til greina kom var að Sigríður hætti í nefndinni, í ljósi þess að athugasemd kom frá fyrrverandi forstjóra FME [Jónasar Fr. Jónsson innsk. blm.]. Hún byggði meðal annars á kröfu um hún viki sæti úr nefndinni. Í vandaðri stjórnsýslu þarf að velta öllum kostum upp, og ræða þá. Sérstaklega þá sem athugasemdir hafa snúið að og það var það sem við gerðum.“

Rannsóknarnefndin vísaði umfjöllun um kröfu Jónasar til forsætisnefndar Alþingis. Páll segir alveg skýrt að Alþingi verði að fjalla um kröfuna, samkvæmt stjórnsýslulögum. Nefndin geti ekki skorið úr um hvort nefndarmenn eigi að halda áfram að sitja í nefndinni eða ekki, þegar krafa kemur fram um að nefndarmenn víki. „Það er nú þannig, að það er eingöngu sá sem veitir starfið sem getur vikið úr starfinu og þess vegna beindum við málinu til Alþingis. Þaðan kom sú óvænta niðurstaða, að Alþingi hefði ekki úrskurðarvald og því er málið komið aftur til okkar. Krafa Jónasar hefur verið sú að einn nefndarmanna víki sæti í nefndinni, og það er ekki okkar að skera úr um það samkvæmt lögum heldur þeirra sem skipa í nefndina. Við sem erum í nefndinni erum í algjöru aukahlutverki hvað það varðar,“ segir Páll.

Páll segir nefndarmenn hafa átt gott samstarf. Starfið sem nefndin hafi unnið sé mikið á skömmum tíma, og vandað hafi verið til verka á öllum vígstöðum. „Við erum að vinna ötullega að því að fá erlenda sérfræðinga til þess að fara yfir starfsemi eftirlitsstofnanna hér á landi, til dæmis. Nefndin er að vinna að því hörðum höndum, í kappi við tímann, að ljúka störfum á þeim tíma sem gefinn var. Vinnan hefur gengið vel, en hún er umfangsmikil eins og gefur að skilja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert