Krefjast úrbóta á Kjalarnesi

Bílar á Vesturlandsvegi.
Bílar á Vesturlandsvegi.

Íbúar á Kjalarnesi krefjast úrbóta í umferðarmálum á svæðinu og hefur Hverfisráð Kjalarness m.a. boðað til opins fundar í Klébergsskóla annað kvöld sem samgönguráðherra og samgöngunefnd Alþingis hefur verið boðið til.

Að sögn Mörgu Guðjónsdóttur, formanns hverfisráðsins ætla íbúar á svæðinu einnig að vera með táknrænar aðgerðir síðdegis á morgun til að leggja áherslu á kröfur um úrbætur, þar á meðal um undirgöng undir Vesturlandsveg þar sem hann liggur gegnum Grundarhverfið.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti bókun á fundi í dag, þar sem ítrekað er mikilvægi þess að Vegagerð ríkisins hraði framkvæmdum við Vesturlandsveg til að auka umferðaröryggi á veginum.

Tekur borgarráð undir með íbúum á Kjalarnesi um að brýnt sé að fara í nauðsynlegar úrbætur á þessu svæði og mikilvægi þess að umferðaröryggismál verði betur tryggð fyrir akandi og gangandi vegfarendur við þessa fjölförnu umferðaræð. 

„Vegagerð ríkisins er veghaldari þjóðvegarins og ber ábyrgð á framkvæmdum við hann. Lögð er áhersla á að vinnu við gerð undirganga undir þjóðveginn á móts við Fólkvang verði hraðað og aðrar ráðstafanir gerðar til að tryggja öryggi gagnvart umferð á veginum. Ennfremur mun Reykjavíkurborg beita sér fyrir því að eftirlit með umferðarhraða, samhliða hraðahindrandi aðgerðum, verði aukið í samráði við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu," segir í bókun borgarráðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert