Neituðu að hætta störfum fyrir ríkið

Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson mbl.is

Baldur Guðlaugsson og Bolli Þór Bollason, sem áður voru ráðuneytisstjórar í fjármála- og forsætisráðuneytinu, neituðu að hætta störfum af sjálfsdáðum eftir að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við völdum nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Eftir að forystumenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna höfðu lagst yfir málið, og m.a. farið yfir réttarstöðu Baldurs og Bolla Þórs, var ákveðið að færa þá um set frekar en að greiða þeim full laun í takt við samningsbundin réttindi þeirra. Sérstaklega er réttarstaða Bolla Þórs sterk en Baldur átti minna eftir af ráðningarsamningi sínum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Hann mun að líkindum hætta störfum um næstu áramót, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Þeir hafa báðir starfað sem embættismenn hjá íslenska ríkinu um áratugaskeið. Embættismenn hafa rík starfsréttindi samkvæmt lögum, meðal annars til þess að tryggja betur starfsöryggi þeirra innan stofnana sem stýrt er af pólitískt kjörnum fulltrúum.

Baldur hefur nú verið skipaður ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu og Bolli Þór er kominn í sambærilegt starf í félagsmálaráðuneytinu. Þeir höfðu verið í tímabundnu leyfi frá því slitnaði upp úr samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í janúar.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var áhersla lögð á að nýta starfskrafta þeirra sem best en þeir tveir hafa mikla reynslu af ráðuneytisstjórastörfum.

Þó var meiri vilji til þess að halda Bolla Þór við stjórnunarstörf heldur en Baldri, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Sérstaklega höfðu forystumenn stjórnarflokkanna áhyggjur af því að umdeild viðskipti Baldurs með hlutabréf í Landsbankanum, 17. september í fyrra, væru til þess fallinn að rýra traust á stjórnkerfinu.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert