Piparúði á þrotum þegar átökin náðu hámarki

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var ekki búin undir þau miklu mótmæli sem brutust út við Alþingishúsið í janúar, lögregluliðið var fámennt og búnaði ábótavant. Þegar óeirðarseggir veittust sem harkalegast að lögreglumönnum aðfaranótt 22. janúar mátti minnstu muna að fáliðuð sveit lögreglumanna yrði ofurliði borin, en á þeim tímapunkti voru birgðir lögreglu af piparúða nánast á þrotum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri BA-ritgerð Vilborgar Hjörnýjar Ívarsdóttur í félagsfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin heitir „Að baki skjaldborgarinnar“ og er að mestu byggð á viðtölum við fimm lögreglumenn í óeirðasveit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Málið er Vilborgu skylt, því eiginmaður hennar er einn af liðsmönnum sveitarinnar.

Rætt er við lögreglumenn undir nafnleynd og í ritgerðinni er að finna áhrifamikla lýsingu á aðstæðunum sem lögregla stóð frammi fyrir.

Aðgerðarstjórnendur hjá lögreglu lýstu því að í upphafi hefði verið tekin sú ákvörðun að vera mjúkir og tillitssamir. Það hafi einnig skipt máli að aðdragandinn var stuttur og lögregla fáliðuð. Ekki voru allir lögreglumenn sammála um kosti þessarar stefnu og töldu að lögregla hefði átt að marka skýrari stefnu.

Allir höfðu þeir fullan skilning á að þeir hefðu verið alltof fámennir til að takast á við svo stóran hóp mótmælenda ef upp úr syði. Ástandið hefði verið vandmeðfarið og aðferð lögreglu, að vera róleg, hefði orðið henni til tekna eftir á. Viðmælendur voru flestir sammála um að lögregla hefði verið of lin við mótmælendur sem sumir veittust hart að þeim við störf með andlegu og líkamlegu áreiti ýmiss konar.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert