Aðferðafræðin gekk upp

Frá mótmælum við Alþingishúsið
Frá mótmælum við Alþingishúsið mbl.is/Kristinn

Frammistaða lögreglunnar við sérstakar og hættulegar aðstæður í janúar sl. sannaði með ótvíræðum hætti að mannfjöldaskipulag, sérþjálfun lögreglumanna og sérstakur búnaður var lífsnauðsynlegt til að afstýra óviðráðanlegu ástandi. Lögreglumenn héldu ró sinni og yfirvegun en árangur þeirra er ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að það var fyrst árið 2001 sem ríkislögreglustjóri hóf athugun á nauðsyn þess að koma upp viðbúnaði lögreglu vegna mannfjöldastjórnunar.

Mótmælin í miðborginni leystust nokkrum sinnum út í hálfgerðar og eiginlegar óeirðir. Þrátt fyrir það voru sárafáir á meðal almennings sem þurftu á aðhlynningu að halda á sjúkrastofnun og um tugur lögreglumanna slasaðist minniháttar. Einn fékk hins vegar grjót í höfuðið og var frá vinnu í töluverðan tíma. Hann hefur þó snúið aftur líkt og aðrir.

Skipulögðum viðbúnaði lögreglu er þar fyrst og fremst þakkað. Fyrir árið 2002 voru hins vegar ekki til verklagsreglur né heildstætt skipulag um framkvæmd mannfjöldastjórnunar og því erfitt að ímynda sér að lögregla hefði ráðið við verkið hefðu álíka aðstæður komið upp.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að sú aðferðafræði sem beitt var hafi ekki verið óumdeild innan lögregluliðsins og ákveðnir einstaklingar hafi haft aðra sýn á málið. Hann bætir við að þegar upp sé staðið hafi aðferðafræðin gengið upp. „Hún gekk upp þannig að við komumst eins skaðlitlir frá þessu og ég tel að hafi verið framast unnt.“ Einnig bendir lögreglustjórinn á að meiðsli meðal mótmælenda hafi nær eingöngu einskorðast við að skola piparúða úr augum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert