„Ekki stúdentum bjóðandi"

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is

„Það er verið að skerða kaupmáttinn um 15-20% miðað við verðlagsvísitölu,“ segir Ingólfur Birgir Sigurgeirsson, lánasjóðs- og hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs. Fyrir utan hækkanir á neysluvörum og skólabókum megi nefna að leigan á stúdentagörðunum hafi hækkað um 20% á einu ári. Það segi sig sjálft að óbreytt framfærslulán sé óhugsandi, hundrað þúsund krónur á mánuði dugi hvergi nærri til. Ingólfur segir einhug meðal námsmanna um að ástandið sé stúdentum ekki bjóðandi.

„Mikill fjöldi námsmanna hefur ekki fengið vinnu í sumar en samt er áfram áætlað að námsmenn skaffi sér sjálfir eina milljón til framfærslu fyrir árið,“ segir Ingólfur. Það liggi ljóst fyrir að háskólanám á Íslandi sé að verða munaður fyrir þá efnameiri. Um 2.000 námsmenn hafa skráð sig í sumarnámskeið í sumar. Þau skerða hins vegar bótarétt. „Við erum að frétta af fólki sem skráir sig úr námi til þess að fara á bætur. Það er hagkvæmara að fara á spenann hjá ríkinu og gera ekki neitt heldur en að læra og vera á námslánum,“ segir Ingólfur. Það sé forkastanleg þróun sem erfitt sé að sjá að komi þjóðfélaginu vel.

Ásgeir Ingvarsson tekur í sama streng og segir að verið sé að „spara eyrinn en kasta krónunni“. Ásgeir sagði sig í gær úr stjórn LÍN, en þar sat hann fyrir hönd Sambands íslenskra námsmanna erlendis. „Með þessu er ég að mótmæla fjársvelti sjóðsins og undirstrika alvöru málsins,“ segir Ásgeir en hann telur að sjóðurinn geti ekki uppfyllt lögbundna skyldu sína til að sjá námsmönnum fyrir dugandi framfærslu.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert