Varar við fækkun háskóla

Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri

 Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri varar sérstaklega við hugmyndum um að öllum háskólum landsins verði steypt saman í tvo háskóla, sem hefðu höfuðstöðvar í Reykjavík. „Með því yrði öll sjálfstæð háskólastarfsemi á landsbyggðinni lögð af en komið yrði á fót óskilgreindum útibúum sem ættu allt undir miðstýrðu valdi höfuðstöðvanna í Reykjavík. Ég dreg í efa ágæti slíkrar útibúastarfsemi á landsbyggðinni,“sagði Þorsteinn í ávarpi á Háskólahátíð á Akureyri í dag.

Þorsteinn lætur nú af starfi en hann hefur verið rektor HA í 15 ár. Á þeim tíma hefur nemendafjöldi margfaldast.

Í dag voru 289 kandídatar brautskráðir: úr hug- og félagsvísindadeild 156, úr heilbrigðisdeild 64 og úr viðskipta- og raunvísindadeild 69.

Þorsteinn sagði m.a. í þessu síðasta ávarpi sínu sem rektor:

„Á síðustu árum hefur aukinn kraftur færst í umræðu um sameiningu háskóla. Þetta er skiljanlegt, því nýta verður almannafé af ráðdeild og tryggja að háskólastofnanir geti haldið uppi þeim gæðum og rannsóknarkröfum sem við viljum halda á lofti.

Þær hugmyndir sem fram komu hjá erlendum sérfræðihóp á dögunum um breytingar á háskólastiginu eru um margt áhugaverðar. Um margar þeirra má þó segja að sumar áherslur þar eru of markaðsmiðaðar. Hlutverk háskóla er mun víðara en að þjóna markaðnum á hverjum tíma. Það má orða það svo að hlutverk háskóla sé að þjóna samfélaginu með því að mennta nemendur sína og með því að stunda sem fjölbreytilegastar rannsóknir. Auðvitað kemur það atvinnulífinu til góða að fá menntað vinnuafl og niðurstöður úr rannsóknum sem geta leitt af sér fyrirtæki. En það er bara hluti af því sem háskólar gera. Starfsemi háskólanna felur einnig m.a. í sér að viðhalda og byggja upp innviði samfélagsins og iðka gagnrýna hugsun.

En ég vil vara sérstaklega við þeim hugmyndum í skýrslu sérfræðihópsins að öllum háskólum landsins verði steypt saman í tvo háskóla, sem hefðu höfuðstöðvar sínar í nokkur hundruð metra fjarlægð frá hvor öðrum í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Með því yrði öll sjálfstæð háskólastarfsemi á landsbyggðinni lögð af en komið yrði á fót óskilgreindum útibúum sem ættu allt undir miðstýrðu valdi höfuðstöðvanna í Reykjavík. Ég dreg í efa ágæti slíkrar útibúastarfsemi á landsbyggðinni. “

Þorsteinn sagði að þegar draga þyrfti saman seglin yrði tilhneiging rík til þess að spara og síðan leggja niður útibúin á meðan höfuðstöðvarnar halda sínum hlut eða jafnvel styrkjast. 

Sérstaða Háskólans á Akureyri er mikil. Hann er sá eini utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar sem býður upp á nám á fleirum en einu fræðasviði. Frá því að Háskólinn á Akureyri var stofnaður hafa rúmlega 3000 einstaklingar brautskráðst héðan. Samkvæmt könnun á afdrifum brautskráðra má gera ráð fyrir að um helmingur þessara einstaklinga eða 1500 búi og starfi hér á Eyjafjarðarsvæðinu, 750 á höfuðborgarsvæðinu og 750 annars staðar á landinu. Einstaklingar sem menntaðir eru í háskólum í Reykjavík skila sér ekki í nægilegum mæli út fyrir Reykjavíkursvæðið. Starfsemi Háskólans á Akureyri er þannig ein forsenda þess að blómlegt atvinnulíf og þjóðlíf vaxi og dafni utan höfuðborgarsvæðisins. Hugmyndir um útibúavæðingu Háskólans á Akureyri eru því ekki aðeins skaðlegar fyrir Háskólann á Akureyri sem stofnun heldur eru þær ógnun við lífvænlega búsetu á landsbyggðinni. 

En hvað er þá til ráða? Vel má hugsa sér að fækka háskólum þannig að tveir væru með höfuðstöðvar í Reykjavík og einn með sínar bækistöðvar á Akureyri.  

Í annan stað en óháð sameiningarumræðum, er nauðsynlegt að auka samstarf háskólanna og huga að verkaskiptingu og sérhæfingu þeirra. Ef litið er á námsframboð þá er mikil skörun í námsframboði Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Stjórnvöld og stjórnendur háskóla verða að spyrja sig erfiðra spurninga eins og þeirrar hvort nauðsynlegt sé að bjóða upp á viðskiptafræði við fimm háskóla í landinu eða laganám við fjóra háskóla. Við mat á þessum atriðum þarf að hafa í huga þætti eins og gæði viðkomandi náms og að jafnrétti til náms án tillits til búsetu og efnahags sé virt. 

Skynsamlegt er einnig að auka sameiginlegar prófgráður innlendra sem erlendra háskóla. Dæmi um það eru nemendur RES Orkuskóla á Akureyri sem útskrifast með sameiginlega meistaragráðu frá Háskólanum á Akureyri og frá Háskóla Íslands.

Áhersla á gæði menntunar og rannsókna er krafa um þátttöku í alþjóðasamfélaginu. Staðla og viðmið sækjum við æ meir í slíkt samstarf. Rannsóknastarfsemi er í auknum mæli alþjóðleg. Þessi þátttaka mun meðal annars kalla á aukið framlag okkar m.a. hvað varðar notkun erlendra tungumála. 

Hér má heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að íslenskir háskólar munu keppa í auknum mæli við erlendar háskólastofnanir. Samkeppnishæfi háskóla hér á landi mun í auknum mæli byggja á því hversu vel þeir sérhæfa sig á ólíkum fræðasviðum. Við þurfum að spyrja: Hvar liggur sérþekking okkar, frumkvæði og vilji til uppbyggingar? Hvert verður framlag okkar til annarra þjóða? 

Í framtíðinni er líklegt að alþjóðleg háskólanet taki á sig sífellt sterkari mynd. Slík alþjóðleg háskólanet munu styrkja viðkomandi háskóla í ólgusjó aukinna samskipta og alþjóðavæðingar. Aðganga að þeim netum mun byggja á þeirri sérhæfingu sem háskólanir geta boðið.“

Þorsteinn Gunnarsson rektor HA eftir brautskráninguna í dag.
Þorsteinn Gunnarsson rektor HA eftir brautskráninguna í dag. mbl.is/BG
Hópurinn sem brautskráðist frá Háskólanum á Akureyri í dag.
Hópurinn sem brautskráðist frá Háskólanum á Akureyri í dag. mbl.is/BG
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert