Afborganir af jeppa útvarpsstjóra tvöfölduðust

Páll Magnússon
Páll Magnússon mbl.is

Greiðslubyrði vegna rekstrarleigusamnings sem RÚV ohf. greiðir af fyrir jeppa sem Páll Magnússon útvarpsstjóri hafði til afnota á síðasta ári þyngdist mikið samhliða gengisfalli krónunnar.

Í janúar í fyrra var greiðslubyrðin á mánuði tæplega 140 þúsund. Eftir að krónan féll, skömmu fyrir páska í fyrra, jókst greiðslubyrðin skarpt eða upp í tæplega 180 þúsund. Í maí voru greiðslur minni, um 30 þúsund, að líkindum vegna viðgerðar á bílnum að sögn Páls.

Greiðslubyrðin hélst í svipuðu fari yfir sumarmánuðina en þyngdist síðan mikið þegar krónan gaf enn meira eftir, á haustmánuðum í fyrra. Þá hækkuðu greiðslurnar vegna rekstrarleigusamningsins úr 174 þúsundum í ágúst í 193 þúsund í september.

Þegar áföllin í efnahagslífinu dundu yfir með falli bankakerfisins í byrjun október hækkuðu mánaðargreiðslurnar um rúmlega 60 þúsund milli mánaða, úr 193 þúsundum í 255 þúsund. Í nóvember hækkaði greiðslan síðan enn meir eða um 24 þúsund. Mánaðargreiðslan hafði því tvöfaldast frá því í upphafi ársins. Afnot útvarpsstjóra af bílnum eru reiknuð til skattskyldra hlunninda í samræmi við reglur skattstjóra þar um og var viðmiðunartalan á síðasta ári rúmlega 207 þúsund á mánuði.

Afnotin af bílnum eru hluti af launakjörum Páls, samkvæmt samningi sem gerður var þegar RÚV ohf. var stofnað á vormánuðum 2007. Þá voru heildarlaun útvarpsstjóra hækkuð úr tæplega 800 þúsundum á mánuði í 1,5 milljónir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert