Fréttaskýring: Gátu ekki stöðvað Icesave

Hollenski seðlabankinn (DNB) gat lítið sem ekkert beitt sér til að stöðva vöxt Icesave-reikninganna í Hollandi þar sem eftirlit með þeim, og Landsbankanum, heyrði undir íslenska Fjármálaeftirlitið (FME). Því voru það stjórnendur Landsbankans og FME sem báru ábyrgð á vextinum.

Þetta kemur fram í skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar um vöxt Icesave-reikninganna í Hollandi sem var kynnt neðri deild hollenska þingsins í gær. Rannsóknin sneri að því hvort eftirlit DNB hefði brugðist, en fjármálaeftirlit landsins heyrir undir seðlabankann.

Samkvæmt niðurstöðu rannsakendanna, lagaprófessoranna Adrienne de Moor-van Vugt og Edgar du Perron, þá gat DNB ekki með nokkrum hætti leyft sér að vara við stöðu Landsbankans og Icesave. Slík aðvörun var ekki einungis lagalega óleyfileg, heldur var hún heldur ekki raunhæf þar sem hún hefði nánast örugglega orsakað áhlaup á Icesave og Landsbankann, ekki bara í Hollandi, heldur hvar sem hann starfaði.

Í skýrslunni kemur einnig fram að DNB gat heldur ekki veitt Landsbankanum aukaaðild að innstæðutryggingakerfi landsins þar sem slíkt stríddi gegn löggjöf Evrópusambandsins (ESB).

Rannsóknarnefndin segir að Icesave-málið sýni að evrópskt fjármála- og eftirlitskerfi þarfnist algerrar endurskoðunar, sérstaklega til að koma í veg fyrir viðlíka alþjóðadeilu og uppgjör, sem Icesave hefur haft í för með sér. DNB sagði í yfirlýsingu í gær að bankinn styddi þá tillögu. Það þyrfti að forðast með öllum tiltækum ráðum að ríki, í þessu tilviki Holland, þyrfti að bera ábyrgð á hruni fjármálafyrirtækis í gegnum innstæðutryggingakerfi sitt.

Rangar upplýsingar frá FME

Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sagði á blaðamannafundi 15. október síðastliðinn að DNB hefði fram á síðustu stundu fengið upplýsingar frá Íslandi um að allt væri í lagi með Icesave-reikningana. Hann hélt því einnig fram á sama fundi að DNB hefði fengið rangar upplýsingar um greiðsluþol íslensku bankanna frá FME út septembermánuð.

Forsvarsmenn Landsbankans og FME funduðu tvívegis með hollenskum yfirvöldum í ágúst 2008 vegna áhyggna af stærð Icesave-reikninganna í Hollandi. Fyrsti fundurinn var á milli fulltrúa hollenska fjármálaeftirlitsins og Landsbankans helgina 16.-17. ágúst. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins vildu hollensk yfirvöld að Landsbankinn hætti að safna innlánum í gegnum Icesave þar í landi, en við því vildu forsvarsmenn Landsbankans ekki verða. Hinn 27. ágúst fóru forsvarsmenn Landsbankans síðan á fund Nout Wellinks, seðlabankastjóra Hollands, þar sem hann lýsti yfir sömu áhyggjum af stærð Icesave-innlánanna. Engin eiginleg niðurstaða varð þó á þessum fundum og nú hefur hin hollenska rannsóknarnefnd sagt að DNB hafi ekki haft lagalegar heimildir til að bregðast við vexti Icesave. Sú ábyrgð hafi legið hjá Landsbankanum sjálfum og eftirlitsaðila hans, FME.

296 milljarðar lagðir inn á fjórum mánuðum

Icesave-reikningar Landsbankans voru opnaðir sem útibú í Hollandi þann 29. maí 2008. Þegar þeim var lokað í október, rúmum fjórum mánuðum síðar, voru viðskiptavinir þeirra orðnir 114.136 talsins. Innstæður á reikningum þeirra voru 1.674 milljónir evra, eða um 296 milljarðar króna miðað við gengi dagsins í dag. Samkvæmt samkomulagi sem íslenska ríkið gerði við það hollenska fyrir skemmstu mun tryggingasjóður innstæðueigenda á Íslandi greiða 71 prósent af þeirri upphæð. Ef hann getur ekki greitt upphæðina mun íslenska ríkið greiða það sem upp á vantar.

Restin, um 86 milljarðar króna, mun falla á hollenska tryggingasjóðinn og þar með hollenska skattgreiðendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert