Spurning um daga hvenær leynd verður létt af Icesave

Retuers

Aldrei hefur staðið til að Icesave-samningurinn yrði leyndarmál. Líklega er það spurning um daga hvenær samkomulag sem nú er unnið að næst við Breta og Hollendinga um að aflétta leynd yfir samningnum, meðal annars til að þingmenn geti kynnt sér hann. Þetta segir Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær kom fram að í Icesave-samningnum væri kveðið á um að leita skyldi til breskra dómstóla til að leysa úr hugsanlegum ágreiningi. Indriði segir það almenna reglu í lánasamningum milli ríkja að leitað skuli til dómstóla í landi lánveitanda.

„Ef aðilum samninga hugnast það ekki, er iðulega notast við bresk lög og dómstóla, jafnvel þó Bretland hafi enga aðkomu að viðkomandi samningi,“ segir Indriði. Breskir dómstólar eiga sér langa sögu og þar er ekki síst styrkur lagarammi um fjármál. Þetta hafi því verið mjög eðlileg ráðstöfun.

Í Icesave-samningnum er að auki kveðið á um að ef Íslendingar standa ekki við sinn hlut, svo sem ef ekki tekst að greiða af láninu, geti lánveitendurnir, Bretar og Hollendingar, gengið að eigum íslenska ríkisins að því marki sem stjórnarskrá leyfir.

Indriði segir þetta ákvæði vera nánast staðalákvæði í milliríkjasamningum. Líkt og í venjulegum lánaviðskiptum geti eigandi skuldarinnar, lánveitandinn, leitað réttar síns og farið fram á fjárnám í eigum skuldarans ef hann stendur ekki í skilum.

„Hér er ríkið að gera sig ábyrgt fyrir þeim eignum sem það hefur. Þess konar ákvæði geta menn fundið í flestum ef ekki öllum lánasamningum milli ríkja, og raunar væri samningurinn lítils virði annars,“ segir Indriði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert