David Lynch styrkir íhugunarnám Íslendinga

David Lynch þegar hann kom til landsins í maí.
David Lynch þegar hann kom til landsins í maí. Morgunblaðið/hag

Kvikmyndaleikstjórinn David Lynch niðurgreiðir námskeiðsgjöld í Innhverfri íhugun fyrir Íslendinga. Þrettán milljónir eru nú í sjóði vegna verkefnisins og unnið er að frekar fjáröflun. Búið er að leigja húsnæði til kennslunnar.

Kvikmyndaleikstjórinn David Lynch, sem dvaldi hér á landi dagana 1.-3.  maí s.l., hefur ákveðið að gefa íslensku þjóðinni 13 milljónir króna til að niðurgreiða námsgjöld í Innhverfri íhugun og stuðla þannig að auknu heilbrigði, sköpunarmætti, velmegun og friði í kjölfar efnahagshrunsins.
 
Segir í fréttatilkynningu að áætlun Lynch miðar að því að bjóða öllum Íslendingum að læra innhverfa íhugun á lágmarksverði ásamt því að leggja grunninn að stöðugum friðarhópi 200 iðkenda sérstakrar framhaldstækni sem, að sögn Lynch, mun skapa samstillingu í þjóðarvitundinni og færa íslensku þjóðinni áður óþekkt lífsgæði á öllum sviðum. „Íslenska þjóðin mun upplifa framfarir sem erfitt er fyrir hana að ímynda sér í dag.”
 
David hefur fylgst vel með gangi mála hér á landi undanfarið og er mikið í mun að vel takist til við framkvæmdina.
 
Hátt í 600 manns á biðlista
Hátt í 600 manns hafa nú skráð sig á námskeið í Innhverfri íhugun. Fimm kennarar geta að jafnaði sinnt kennslunni næstu vikur og mánuði á höfuðborgarsvæðinu en Innhverf íhugun er aðeins kennd af sérmenntuðum kennurum. Þar sem hver kennari getur aðeins kennt 8-12 manns á viku mun taka nokkra mánuði að kenna þeim fjölda sem nú hefur  óskað eftir að komast á námskeið. Námsgjald fyrir hvern og einn verður einn tíundi af venjulegu námsgjaldi eða kr. 10.000. Sjóður David Lynch greiðir á móti kr. 10.000 með hverjum nemanda og sérstakur innlendur styrktarsjóður kr. 10.000. Þannig verður unnt að standa straum af beinum kostnaði við framkvæmdina. Áætlað er að fyrsta námskeiðið hefjist föstudaginn 3. júlí næstkomandi.
 
Styrktarsjóður
Unnið er að ýmsum fjáröflunarhugmyndum í því skyni að safna í hinn innlenda styrktarsjóð að frumkvæði Sigurjóns Sighvatssonar kvikmyndaframleiðanda sem var aðal milligöngumaður um komu David Lynch til Íslands. Má þar nefna þýðingu og útgáfu hinnar vinsælu bókar David Lynch um Innhverfa íhugun og skapandi hugsun sem nefnist „Að landa þeim stóra“ (Catching The Big Fish). Bókin er væntanleg á markað með haustinu. Jafnframt er í bígerð framleiðsla á stuttermabolum með sérhönnuðum myndum eftir David Lynch, tónleikar með þekktum íslenskum hljómsveitum o.fl.
 
Nýtt húsnæði til kennslunnar
 
Þá segir að tekið hafi verið á leigu 160 fermetra skrifstofuhúsnæði í Skúlatúni 2 í Reykjavík sem hentar vel til kennslunnar. Undanfarið hefur verið unnið að því að koma húsnæðinu í nothæft ástand. Framkvæmdir hafa tekið heldur lengri tíma en áætlað var en verkið hefur að mestu verið unnið í sjálfboðavinnu. 


Hér má lesa meira um íhugunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert