Hallinn stefndi í 193 milljarða

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, er lengst til hægri á myndinni.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, er lengst til hægri á myndinni.

Hallinn á ríkissjóði stefndi í 193 milljarða króna á þessu ári ef ekkert hefði verið að gert. Þetta kom fram hjá formanni fjárlaganefndar Alþingis í umræðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem stendur yfir á þinginu. Hann boðaði strangan aga í ríkisfjármálum.

Fjárlög fyrir yfirstandandi ár voru afgreidd með 153 milljarða króna halla, en vegna meira tekjufalls en gert var ráð fyrir og aukinna útgjalda Atvinnutryggingasjóðs stefndi í að útgjöldin yrðu 20 milljörðum hærri. Frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem nú er verið að fjalla um á Alþingi, á að taka á því og bæta afkomu ríkissjóðs á þessu ári um rúma 20 milljarða.

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar, upplýsti einnig á Alþingi í dag, að við fjárlagagerðina í vetur hefði gleymst ríkisábyrgð á 20 milljarða láni, sem þurfi að gjaldfæra í tengslum við Seðlabankann. Ekki sé hins vegar gert ráð fyrir að auka tekjur ríkisins til að mæta þessa og því stefnir í að halli á fjárlögum verði 173 milljarðar króna á þessu ári.

Guðbjartur boðaði að mjög strangt aðhald verði tekið upp með rekstri ríkisstofnana og þær verði ekki látnar komast upp með að færa umframheimildir yfir á næsta ári. Ekki verði liðið að stofnanir eyði meira en fjárlög heimila.  Þá sé gert ráð fyrir, að ráðuneyti ráði ekki í ný störf og ráði ekki í stað þeirra sem hætta. Einnig verði skoðað hvort tilteknar stofnanir starfi áfram eða hvort þær verði sameinaðar öðrum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert