Munnlegt samkomulag við FME

Gunnar I Birgisson segir Flosa Eiríksson fara rangt með.
Gunnar I Birgisson segir Flosa Eiríksson fara rangt með. mbl.is/ÞÖK

„Það var öllum stjórnarmönnum fullkunnugt um og það var gert með samþykki allra að við færum útfyrir heimildir sjóðsins til að geta ávaxtað fé sjóðsfélaganna sem best því það voru engir fjárfestingakostir í efnahagshruninu. Þetta var rætt yfirleitt á hverjum stjórnarfundi og síðan kemur endurskoðandi sjóðsins á fund til okkar í maí og gerir athugasemd við þetta og síðan áttum við fund með fjármálaeftirlitinu og var gert samkomulag um að ganga frá málinu fyrir júlílok, við gerðum það fyrir maílok. Þannig að þessar yfirlýsingar koma mér mjög á óvart," sagði Gunnar Birgisson stjórnarformaður í Lífeyrissjóði Kópavogs í samtali við mbl.is

 Með hvaða hætti var gengið frá málinu? „Það var bara greitt upp þetta lán sem var til bæjarins. Við vildum eðlilega ávaxta fé sjóðsfélaga sem best og gera það hjá öruggasta aðilanum þar til að við gætum farið að fjárfesta í einhverju öðru, kaupa hlutabréf, sem var náttúrulega ekki hægt og ekki þorðu menn að leggja inn í bankana, það voru hér tugir milljarða undir kodda hjá fólki út um allt, þannig að maður treysti því nú ekki, það voru ekki til þá ríkisbréf og við vorum að bíða eftir ársreikningum sveitafélaganna til að geta keypt skuldabréf frá þeim og svo framvegis en núna er búið að koma þessum peningum í aðra ávöxtun sem er þó ekki eins góð og hjá Kópavogsbæ," sagði Gunnar.

Rangt hjá Flosa

 Hvað með þessa yfirlýsingu frá Flosa Eiríkssyni í morgun um að þú hafir sagt eitt við sjóðsfélaga og annað við FME?

„Hann verður að eiga hana við sig, þetta er bara rangt. Öll samskipti við FME voru lögð fram í stjórninni, við sendum FME tvö eða þrjú bréf sem öll voru lögð fram í stjórninni. Ég hitti þá ásamt framkvæmdastjóra  og fjármálastjóra bæjarins á tveimur fundum í nóvember eða desember og öðrum í maí og stjórninni var eðlilega gert grein fyrir því," sagði Gunnar og bætir því við að aðgerðir FME komi sér mjög á óvart þar sem hann taldi sig hafa gert samkomulag um að frestur yrði gefinn til að ganga frá þessu máli.

„Það var að vísu munnlegt en ekki skriflegt samkomulag en við vorum þrjú á fundinum fyrir hönd sjóðsins," sagði Gunnar. Aðspurður sagðist hann ekki vera búinn að kynna sér hvaða gildi slíkt munnlegt samkomulag hefur í lagalegum skilningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert