Réttlætanlegt að nota sjúkrabíla

För mannsins var stöðvuð við port lögreglustöðvarinnar á Hlemmi.
För mannsins var stöðvuð við port lögreglustöðvarinnar á Hlemmi. mbl.is/Heiðar

Maður, sem handtekinn var á sunnudagskvöld eftir að hafa ekið ítrekað á hurðir á slökkvistöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík, hefur áður komið við sögu lögreglu og það nokkrum sinnum. Þó svo að ekki hafi fengist skýringar á háttsemi mannsins frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er talið að viðskipti hans við lögreglumenn hafi valdið miklum ofsa í manninum sem hafi brotist út með þessum hætti. 

Ekki er nóg með að maðurinn teldi sig eiga eitthvað sökótt við lögregluna í heild sinni heldur einnig Neyðarlínuna. Því renndi hann bíl sinnum inn á hlað Skógarhlíðar 14, en þar eru til húsa, auk Neyðarlínunnar, Landhelgisgæslan, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins.

Þar hóf hann að aka á útkeyrsluhurðir slökkviliðsins. Vann hann skemmdir á nær öllum hurðunum. Í einni atrennunni á hurðirnar komst hann í gegn og lenti framan á sjúkrabíl. Sjúkrabíllinn skemmdist þó lítið.

Slökkviliðsmenn sem sáu til mannsins vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið. Þeir höfðu ekki fengið pata af fyrirhugaðri heimsókn mannsins og það þó svo að hann hafi látið Neyðarlínuna vita. Lögreglu bar skjótt að og var maðurinn fljótur að stórskemma einn lögreglubíl, enda var hann á Grand Cherokee-jeppa. Mátti litlu muna að stórslys yrði í þeim atgangi.

Betra en að gera ekkert

Þegar hér var komið sögu gerðu slökkviliðsmenn sér fulla grein fyrir því að stórhætta stafaði af manninum. Einbeittur vilji hans til að aka á bíla og menn var meira en þeir gátu horft upp á. Slökkviliðsmenn eru hins vegar ekki öðrum bílum búnir en slökkviliðsbílum og sjúkrabílum. Sú ákvörðun var tekin að reyna að stoppa manninn á sjúkrabílum.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segist hafa heyrt gagnrýnisraddir vegna þessa en stendur að baki sínum mönnum. Almannaheill er meira virði en bílar og ákvörðunin hafi verið réttlætanleg. Hann telur einnig að gagnrýnisraddirnar hefðu verið töluvert hærri ef slökkviliðsmenn hefðu setið aðgerðarlausir og ökumaðurinn ekið á vegfarendur.

Ein sjúkrabifreið skemmdist nokkuð  en er þó nothæf. Jón Viðar segist ekki gera sér í hugarlund tjónið sem SHS varð fyrir en það sé um og yfir ein milljón króna.

Frá Skógarhlíð lá leið mannsins upp á Bústaðaveg í átt að bensínstöð Skeljungs. Þar reyndu lögreglumenn og slökkviliðsmenn að króa hann af en án árangurs. Maðurinn bakkaði jeppa sínum á miklum hraða, sneri honum við og hélt í öfuga átt, að Snorrabraut.

Myndskeið af akstri mannsins

Á Snorrabrautinni skeytti hann í engu um líf þeirra sem á vegi hans urðu, ók bíl sínum á tvo fólksbíla – og þótti mildi að engin slys urðu – og beint að lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Á þessum tíma var sprungið á einu dekki jeppans og hefur það eflaust átt sinn þátt í að hann komst ekki inn á bifreiðaplan fyrir aftan lögreglustöðina heldur hafnaði á hliðinu.

Æstur og erfiður viðureignar

Maðurinn var snarlega handtekinn. Hann var mjög æstur og erfiður viðureignar og því ómögulegt að yfirheyra hann. Eftir að hafa sofið úr sér sýndi hann iðrun við skýrslutöku í gærdag.

Þrátt fyrir fjölda árekstra slasaðist maðurinn lítið sem ekkert. Hann skemmdi hins vegar tvo lögreglubíla auk þess sem jeppinn sem hann var á er mikið skemmdur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert