Gróðurskemmdir vegna utanvegaaksturs við golfvöllinn í Bolungarvík

Bæjarins besta

Torfæruakstur utan vega í Syðridal í Bolungarvík hefur aukist til muna í sumar. Nýta ökuþórar á torfærumótorhjólum sér landsvæði rétt utan við Syðridalsvöll, golfvöll Golfklúbbs Bolungarvíkur. Bolvískir kylfingar eru ekki á eitt sáttir með þennan akstur. Mikið votlendi er á svæðinu sem hefur verið spænt upp.

Haustið 2006 hafði stjórn GBO áhyggjur af torfæruakstri utan vegar fyrir innan golfvöllinn og síðan þá hefur hann aukist. Hafa forsvarsmenn klúbbsins velt því fyrir sér hvort leyfi hafi verið veitt fyrir akstrinum sem og hvort ekki hafi þurft umsögn frá Náttúrustofu Vestfjarða þar sem viðkvæmt fuglalíf er á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum í Bolungarvík, hefur enginn sótt um tilheyrandi leyfi.

Landsvæðið, sem er í eigu Bolungarvíkurkaupstaðar, er á milli sandnámu bæjarins og þjóðvegarins í Syðridal. Slíkur akstur torfærutækja getur valdið alvarlegum gróðurskemmdum og er svo komið að gróður innan marka golfvallarins hefur orðið fyrir skemmdum vegna þessa.

Í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999 er kveðið á um bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega og í reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands, nr. 528/2005 er áréttuð sú meginregla að óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í náttúru Íslands. Þar er jafnframt tekið fram að akstur torfærutækja sé aðeins heimilt utan vega á til þess samþykktum svæðum. Er því ljóst að þar með eru viðkomandi ökuþórar að brjóta gegn ákvæðum 1. mgr. 17. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Jón Fannar Kolbeinsson, fulltrúi sýslumannsins á Ísafirði, segir nokkur slík mál hafa farið fyrir dómstóla en ákæruvaldið þurfi að hafa skýr sönnunargögn gegn gerendunum og standa þurfi þá að verki. Lögreglan mun því fylgjast vel með akstri utan vega á þessu svæði hér eftir þar sem um vítaverðan utanvegaakstur sé að ræða.

www.bb.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert