Ekki meira en 45% skattar

Frá formannafundi ASÍ í vikunni.
Frá formannafundi ASÍ í vikunni. mbl.is/Eggert

Stefnt er að undirritun stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins, BSRB, ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga kl. 13 í dag. Um hríð í gær leit út fyrir að opinberir starfsmenn (BSRB) heltust úr lestinni, en eftir langan fund í stjórnarráðinu, með forsætisráðherra, sneru fulltrúar þeirra aftur að samningaborðinu.

Áður höfðu fulltrúar BSRB neitað að sætta sig við það hlutfall í niðurskurði á útgjöldum hins opinbera á árinu 2011, sem ASÍ og SA höfðu samþykkt. Ríkisstjórnin var tilbúin til þess að fallast á þá tillögu ASÍ og SA að tekjuöflun í formi skatta árið 2011 til þess að loka gati ríkisfjármála á því ári, yrði ekki hærri en 45% og niðurskurður ríkisútgjalda næmi 55%, en hafði á mánudagskvöldinu gert tillögur um umtalsvert hærra hlutfall skatta, eða sem svaraði um 13 milljörðum króna hærri skatta árið 2011, og þar af leiðandi minni niðurskurð í útgjöldum hins opinbera en árið 2010.

Að loknum fundi í stjórnarráðinu hittust aðilar á nýjan leik í Karphúsinu í gærkvöld og var búist við að texti stöðugleikasáttmálans yrði fínpússaður og samræmdur fram á nótt.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er þannig komin sátt á milli allra aðila um hvernig tekið verður á ríkisfjármálum út árið 2011. Árin 2012 og 2013 bíða seinni tíma úrlausna og samninga. Sáttmálinn tekur, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, til atriða sem snúa að heimilunum í landinu, opinberum framkvæmdum, endurreisn bankakerfisins, gjaldeyrisviðskiptum, fjárframlögum til Starfsendurhæfingarsjóðs, málefnum sveitarfélagana og síðast en ekki síst markmiðum í sambandi við þróun vaxtastigs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert