SA setur fyrirvara vegna fyrningarleiðarinnar

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Fyrirvari okkar snýst um það að að menn nálgist málið án þess að það séu gefnar fyrirfram niðurstöður og menn reyni að ná um það sátt,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnar, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, sem undirritaður var fyrr í dag, viðhalda SA þeim fyrirvara gagnvart framlengingu kjarasamninga að vinna á vegum  ríkisstjórnarinnar um endurskoðun fiskveiðistjórnunar eða innköllun aflaheimilda á næstu 20 árum, verði í þeim sáttafarvegi sem lagt var upp með við skipan nefndar til þess að vinna að því máli.

„Þegar stjórnarsáttmálinn var birtur með þeirri yfirlýsingu að það ætti að innkalla aflaheimildir í sjávarútvegi og leggja fram áætlun um það efni næsta haust, varð fullkomið uppnám í atvinnulífinu,“ segir Vilhjálmur Egilsson.

Hann segir að í þeirri stöðu hefði ekki þýtt að tala um neitt sem snýr að stöðugleikasáttmála, kjarasamningum eða öðru slíku.

„Það sem við gerðum var að beina þessari umræðu allri og þessum áformum ríkisstjórnarinnar um endurskoðun fiskveiðistefnunnar, í sáttafarveg þar sem menn gætu þá reynt að nálgast málið án þess að hafa einhverjar fyrirfram gefnar niðurstöður og sjá hvert það myndi leiða,“ segir Vilhjálmur.

Það er sá sáttafarvegur sem SA vísar til í stöðugleikasáttmálanum. Framkvæmdastjóri SA segir að ef málið verði rifið út úr þeirri nefnd sem skipuð var séu stjórnvöld að hjóla í atvinnulífið.

„Þá er það að okkar mati atlaga að atvinnulífinu og við höfum fulla fyrirvara á öllum málum ef á að nálgast hlutina með þeim hætti. En við viljum fara í þessa endurskoðun með opið blað. Það liggja engar tillögur eða fyrirfram gefnar niðurstöður fyrir í upphafi starfsins. Við vitum alveg hvaða stefnu stjórnarflokkarnir hafa og við vitum hvað stendur í stjórnarsáttmálanum, það verður ekki strikað yfir það sem stendur þar en það þarf að vinna sig í gegnum þetta mál. Við viljum láta á það reyna hvort málið getur ekki fengið eðlilegan framgang í þessum sáttafarvegi,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Sáttmálinn í heild

Samkomulag ASÍ og SA 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert