Fréttaskýring: Meint brot Hannesar Smárasonar

Hannes Smárason.
Hannes Smárason. mbl.is/Golli

Hannes Smárason reyndi í vikunni að fá húsleitir sem framkvæmdar voru í tengslum við rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á honum og félögum í hans eigu úrskurðaða ólögmæta. Héraðsdómur synjaði beiðninni en Hannes hefur ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar. Málin sem eru til rannsóknar eru nokkur talsins og snerta bæði félög í eigu Hannesar og fyrrum almenningshlutafélagið FL Group, sem Hannes stýrði á sínum tíma. Hluthafar þess á þeim tíma sem rannsóknin nær til skiptu þúsundum.

Upphaf

Upphaf málsins má líklega rekja til þess þegar FL Group skilaði ársreikningi fyrir árið 2007 um miðjan febrúar í fyrra. Þar kom fram að félagið hefði tapað 67,3 milljörðum króna auk þess sem við bættust rúmlega 12,5 milljarðar króna í bakfærða skatta. Eiginlegt tap var því um 80 milljarðar króna.

Í ársreikningum vakti athygli að rekstarkostnaður félagsins var sagður 6.153 milljónir króna. Hann var sundurliðaður í þrjá þætti: laun og launatengdar greiðslur sem voru 2.543 milljónir króna, afskriftir sem voru 113 milljónir króna og „annar rekstarkostnaður" sem var 3.497 milljónir króna. Einu upplýsingarnar sem hafa fengist um síðastnefnda kostnaðarliðinn eru þær að undir hann heyrðu húsnæðiskostnaður, tölvu- og tæknimál, styrktarmálefni, markaðs- og kynningarkostnaður, ferðalög starfsmanna, aðkeypt þjónusta og kostnaður vegna upplýsingaveitna. Á árinu 2007 störfuðu 35 til 40 manns að meðaltali hjá FL Group og rekstarkostnaður vegna fjárfestingafélagsins eingöngu nam um 5,3 milljörðum króna.

Inspired Gaming Group

Síðar kom í ljós að beinn útlagður kostnaður FL Group vegna fyrirhugaðrar yfirtöku á breska félaginu Inspired Gaming Group (IGG) í ágúst 2007 hefði numið 792 milljónum króna. Hætt var við yfirtökuna í desember sama ár. Hjá FL Group fengust þær upplýsingar á sínum tíma að kostnaðurinn væri tilkominn vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og umsaminna bótagreiðslna til IGG vegna þess að ekkert varð af yfirtökunni. FL Group hefur ekki viljað gefa upp hverjir það voru sem fengu hinar svokölluðu sérfræðigreiðslur.

Skattayfirvöld fá áhuga

Þetta var eitt þeirra atriða sem vöktu athygli skattayfirvalda á starfssemi FL Group. Skömmu eftir birtingu ársreikningsins hóf Skattstjórinn í Reykjavík, að undirlagi embættis skattrannsóknarstjóra, að kalla eftir frekari upplýsingum um rekstur FL Group og nánari útskýringum á ákveðnum kostnaðarliðum. Bréfasamskipti áttu sér stað í kjölfarið.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fóru greiðslur vegna aksturs, viðvika og margvíslegrar annarrar þjónustar til félagsins J-EINNÁTTA ehf., sem er í eigu Jóns Þórs Sigurðssonar, upp á sex milljónir króna á mánuði einnig að þykja áhugaverðar í augum skattayfirvalda. Ekki þótti liggja ljóst fyrir að sú þjónusta sem félagið veitt væri vegna reksturs FL Group. Útseld vinna J-EINNÁTTA á árunum 2006 og 2007 var um 140 milljónir króna samkvæmt ársreikningum.

Í úrskurði vegna óska Hannesar Smárasonar um að húsleitir á heimili hans og á lögmannsstofunni Logos yrðu úrskurðaðar ólögmætar kom fram að J-EINNÁTTA hefur verið til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra um lengri tíma og bókhald félagsins er hjá embættinu. Fyrirsvarsmaður félagsins hefur verið boðaður fimm sinnum til yfirheyrslu.

J-EINNÁTTA leigði einnig húsnæði af félagi í eigu Hannesar Smárasonar, Hlíðarsmára 6 ehf., í Faxafeni. Húsnæðið var meðal annars kallað „dótakassinn" í DV í febrúar síðastliðnum vegna þess að þar voru geymdar lúxusbifreiðar og önnur vélknúin tæki á borð við snjósleða og fjórhjól. Tækin voru í eigu Hannesar og annarra viðskiptafélaga hans. Rökstuddur grunur leikur á því samkvæmt greinargerð efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að félag Hannesar hafi vantalið tekjur sínar vegna útleigu umrædds húsnæðis.

Leiga á flugvél þykir orka tvímælis

Skattayfirvöld höfðu einnig mikinn áhuga á af viðskiptum FL Group við Awair Ltd., sem var í eigu FI Fjárfestinga, sem aftur eru í eigu Hannesar Smárasonar. FI Fjárfestingar fengu greiddar 85 milljónir króna á árinu 2007 frá FL Group vegna afnota félagsins af einkaflugvél sem skráð var á Awair ehf.

Auk þess skuldaði Materia Invest, sem þá var einn stærsti eigandi FL Group, félaginu 73 milljónir króna í árslok 2007. Sú skuld var greidd í janúar 2008 en aldrei hefur fengist uppgefið af hverju almenningshlutafélag lánaða einum hluthafa tugi milljóna króna.

Húsleit framkvæmd í höfuðstöðvum FL Group

Rannsóknin tók síðan á sig beinskeyttari mynd þann 11. nóvember í fyrra þegar um tugur manna á vegum embættis skattrannsóknarstjóra hélt inn í höfuðstöðvar FL Group til húsleitar. Þar dvöldu þeir í nokkrar klukkustundir, tóku afrit af bókhalds- og tölvugögnum sem þeir telja að geti varpað ljósi á það sem embættið telur vera óútskýrðar gjaldfærslur sem færðar voru inn í efnahagsreikning FL Group sem rekstarkostnaður.

Embætti skattrannsóknarstjóra lagðist síðan yfir þau gögn sem safnað hafði verið saman. Eitt af því sem sérstaklega var litið á var hvort að hlunnindi starfsmanna FL Group hefðu verið skráð í rekstarreikning félagsins, en slík hlunnindi eru skattskyld.

Líkt og ávallt í rannsóknum embættisins stóð til að klára þau mál sem hægt væri að klára með sektargreiðslum eða endurálagningu hjá því. Þeim málum sem ekki var hægt að ljúka með þeim hætti yrði vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Sterling viðskiptin send til efnahagsbrotadeildar

Skattrannsóknarstjóri vísaði á endanum meintum auðgunarbrotum varðandi viðskipta FL Group tengdum danska flugfélaginu Sterling árið 2005 til efnahagsbrotadeildarinnar vegna gruns um að þar hefðu átt sér stað auðgunarbrot. Auk þess kærði skattrannsóknarstjóri meint skattalagabrot FL Group og félaga í eigu Hannesar Smárasonar til efnahagsbrotadeildarinnar.

Á grundvelli þessara mála framkvæmdi efnahagsbrotadeildin húsleitir í glæsihýsum Hannesar að Fjölnisvegi 9 og 11 og á lögmannsstofunni Logos þann 3. júní síðastliðinn. Lögmaður Hannesar gerir miklar athugasemdir við framkvæmd þeirra húsleita í greinargerð sem hann skilaði til að reyna að fá þær úrskurðaðar ólögmætar. Þar segir orðrétt að á Fjölnisvegi hafi verið mættur „ungur dökkhærður maður. Kvaðst hann vera lögfræðingur hjá varnaraðila [innsk. blaðam. efnahasgbrotadeild], án þess að kynna sig nánar[...]Hann spígsporaði um alllt húsið og hafði uppi stór orð um íbúrð og bruðl skjólstæðings míns."

Rík tengsl Gunnar við Hannes

Húsleitin hjá Logos var framkvæmd vegna tengsla Gunnars Sturlusonar, faglegs framkvæmdastjóra lögmannsstofunnar, við eignarhaldsfélög í eigu Hannesar sem voru til rannsóknar vegna meintra skattalagabrota. Félögin eru FI fjárfestingar, sem hét Prímus fram í lok nóvember síðastliðinn, og fjögur dótturfélög þess. Þau heita EO eignarhaldsfélag (áður Eignarhaldsfélagið Oddaflug), eignarhaldsfélagið Sveipur, Hlíðarsmári 6 ehf. og Fjölnisvegur 9 ehf. Gunnar var framkvæmdastjóri og stjórnarforamður FI Fjárfestinga og stjórnarformaður EO eignarhaldsfélags fram til 28. nóvember 2008. Þá sat hann einnig í stjórn Sveips.

Stjórn FL Group samþykkti kaupin á Sterling

Hin meintu auðgunarbrot snúa, líkt og fyrr segir að viðskiptum FL Group tengdum flugfélaginu Sterling árið 2005, en Hannes var á þeim tíma stjórnarmaður og forstjóri félagsins. Hann var auk þess stærsti einstaki eigandi þess.

Rannsóknin beinist annars vegar að kaupum FL Group á Sterlling af eignarhaldsfélaginu Fons, sem var í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Kaupin voru samþykkt á stjórnarfundi í FL Group þann 21. október 2005 og kaupverðið var 15 milljarðar króna. Hálfu ári áður hafði Fons keypt Sterling á um fjóra milljarða króna. Tveimur dögum áður hafði Hannes stígið niður sem stjórnarformaður félagsins og tekið við forstjórastarfinu. Í sjö manna stjórn félagsins sátu sem samþykktu kaupin sátu meðal annars stjórnarformaðurinn Skarphéðinn Berg Steinarsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Ármann, Sigurður Bollason og Þorsteinn M. Jónsson, oft kenndur við Vífilfell. Þeir voru allir nánir viðskiptafélagar Hannesar á þessum tíma.

Stjórnin veitti Hannesi fullt umboð til að ganga frá kaupunum á Sterling, en kaupsamningurinn var undirritaður 23. október 2005. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra segir í greinargerð sinni að hún „telji að kaup þessi hafi valdið hlutafélaginu FL Group verulegu fjárhagslegu tjóni, þar sem flugfélagið kunni að hafa verið keypt á yfirverði.Af þessum sökum telji embættið að um rökstuddan grun sé um að ræða að með nefndum viðskiptum kunni að hafa verið framið brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga."

Hannes neitaði þessum sakargiftum með öllu í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær. Þar segir hann mikil viðskiptatækifæri hafa legið í kaupunum á Sterling, kaupin hafi verið kynnt opinberlega og samþykkt af stjórn FL Group. Þá hefði markaðurinn tekið kaupunum vel. Hann þvertekur fyrir að lög hafi verið brotin í viðskiptunum.

46,5 milljónir dala millifærðir til Lúxemborg

Hins vegar rannsakar efnahagsbrotadeildin meint brot Hannes á hlutafélagalögum vegna meintar lánveitingar FL Group til Hannesar eða örðum félögum honum tengdum. Millifærslan sem um ræðir var upp á 46,5 milljónir dala og átti sér stað í apríl 2005, en upphæðin nam á þeim tíma um þremur milljörðum króna. Peningarnir voru lagðir inn á bankareikning hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Á sama tíma var Fons að kaupa Sterling. Hannes á að hafa fyrirskipað millifærsluna án vitneskju Ragnhildar Geirsdóttur, þáverandi forstjóra FL Group. Hún hætti störfum hjá félaginu nokkrum dögum áður en gengið var frá kaupunum á Sterling.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins staðfesta gögn sem efnahagsbrotadeildin lagði hald á að millifærslan hafi átt sér stað. Talið er að fjármunirnir hafi verið notaðir sem trygging fyrir lánveitingu til Fons þegar félagið keypti Sterling. Fjármunirnir voru færðir aftur til FL Group í júní 2005 og reikningnum í Lúxemborg lokað í kjölfarið. Vegna þessa telur efnahagsbrotadeildin að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um auðgunarbrot. Hannes neitar því einnig staðfastlega að um ólögmæta lántöku hafi verið um að ræða. Í yfirlýsingu hans segir að fyrir liggi í gögnum „að fjármunir voru færðir á milli bankareikninga í eigu FL Group á tilteknu tímabili, líkt og í fjölmörgum öðrum tilvikum, án þess að ég eða félag mér tengt hefði sérstakra hagsmuna að gæta, beint eða óbeint.[..] Færsla á fjármunum á milli bankareikninga í eigu félagsins sjálfs getur ekki verið ólögmæt lánveiting til mín." Hann vísar síðan í staðfestingu Jóns S. Helgasonar, sem þá var endurskoðandi FL Group, um að fjármunirnir hafi verið á bankareikningi í eigu FL Group allan tímann.

Skattalagabrotin

Efnahagsbrotadeildin rannsakar einnig mögulega skattalagabrot félaga í eigu Hannesar, líkt og áður hefur verið vikið að. Meðal annars er verið að rannsaka hvort að Hannes hafi látið FI fjárfestingar, sem var í hans eigu, greiða fyrir sig persónulegan kostnað á borð við flug- og bíóferðir fyrir tugi milljóna króna. Kostnaðurinn var bókfærður á viðskiptamannareikning hjá almenningshlutafélaginu FL Group en síðan endurgreiddur af FI fjárfestingum. Þetta þykir rökstyðja grun um að FI fjárfestingar hafi verið að greiða einkakostnað Hannesar, án þess að hann væri starfsmaður félagsins.

Í greinargerð efnahagsbrotadeildar er einnig lýst miklum fasteignagjörningum um, meðal annars Fjölnisveg 9 og 11, sem Hannes og sambýliskona hans eru sögð hafa keypt á undirverði. Þar segir að ætla megi að kaup félagsins á fasteignum hafi ekki verið gerð í ábataskyni heldur sé hugsanlega um málamyndagjörning að ræða. Því sé rökstuddur grunur til staðar um skattsvik. Auk þess er fjallað um félögin Hlíðarsmára 6, líkt og lýst var hér að ofan , Sveip og Oddaflug í greinargerðinni. Um sé að ræða „margvísleg viðskipti sem kunna að vera refsiverð, og kallar það á frekari gagnaöflun og áframhaldandi rannsókn." Verið er að kanna viðskipti félaganna á árunum 2006 og 2007, en þau voru þá skráð til heimilis í höfuðstöðvum Logos að Efstaleiti 5 í Reykjavík.

Enn í rannsókn og engar ákærður verið gefnar út

Vert er að taka fram að öll ofangreind mál eru enn sem komið er einungis til rannsóknar og ekki hefur verið gefin út nein ákæra. Hannes segist sjálfur vera sannfærður um að niðurstaða málanna verði sú að engin lög eða reglur hafi verið brotnar. Hann tiltekur einnig í yfirlýsingu sinni að nauðsynlegt sé „að vanda umfjöllun um viðkvæm mál og fara hægt í að kynda undir galdrabrennurnar því að í öllum tilvikum eru börn og fjölskyldur sem tengjast viðkomandi aðilum."

En fyrrum hluthafar FL Group eru líka reiðir vegna málsins, enda félagið í dag í greiðslustöðvun og hlutabréfaeign þeirra að engu orðin. Vilhjálmur Bjarnason, hluthafi í FL Group og framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, sagði til að mynda við Morgunblaðið þann 6. júní síðastliðinn að sennilega geti hluthafar leitað réttar síns gagnvart þeim einstaklingum sem framkvæmdu þá gjörninga innan félagsins sem nú er verið að rannsaka. „Sérstaklega ef það kemur í ljós að Hannes [Smárason], Pálmi [Haraldsson] og Jón Ásgeir [Jóhannesson] hafi með einhverjum hætti skipt á milli sín hagnaði af Sterling-viðskiptunum. Þá er þetta alveg borðliggjandi. Það voru þeir persónulega sem framkvæmdu þessar gjörðir."

Rannsókn á FL Group/Stoðum hófst fyrst í vor
Rannsókn á FL Group/Stoðum hófst fyrst í vor Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður, og Hannes Smárason, forstjóri, á hluthafafundi …
Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður, og Hannes Smárason, forstjóri, á hluthafafundi FL Group fyrir nokkrum árum.
Aðalfundur FL Group árið 2007.
Aðalfundur FL Group árið 2007. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert