Sjóvá gat fengið mun betra verð

Reuters

Þröstur Jóhannsson, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Cosamajo, sem er meðal annars í ráðgjöf og fasteignaviðskiptum í Hong Kong, er athafnamaður sem búið hefur í Hong Kong í 13 ár. Hann hefur miklar efasemdir um að Sjóvá og Glitnir hafi gert rétt í því að rjúfa kaupsamninginn sem Sjóvá gerði við Shun Tek í október 2006, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Tap Sjóvár af samningsslitunum er yfir 3,2 milljarðar króna.

„Það bendir allt til þess að það hefði verið einfalt mál fyrir þá sem voru að semja fyrir hönd Sjóvár hér í Hong Kong að ná mun hagstæðari samningum en þeir gerðu, einfaldlega vegna þess að markaðsverð á sambærilegum fasteignum í Macau er um 4.500 HK dollarar fyrir hvert ferfet. Sjóvá samdi sig út úr samningnum á verði til Shun Tak sem mér sýnist vera um 3.300 HK dollarar fyrir ferfetið, þannig að þeir eru að semja langt undir markaðsverði. Þeir keyptu haustið 2006 á 4.400 HK dollara ferfetið, þannig að miðað við markaðsverð í dag, hefðu þeir átt að geta sloppið frá samningnum á sléttu, en ekki með yfir þriggja milljarða króna tapi,“ sagði Þröstur þegar Morgunblaðið náði tali af honum í Hong Kong í gær.

Meðalverð 4.500 HK dollarar

Þröstur segir að sambærilegar fasteignir séu núna að seljast í Macau á 4.000 til 5.000 HK dollara ferfetið Hann segist hafa upplýsingar um að eign í Turni III, í Macau, sem er sambærileg bygging og Turn IV, sem Sjóvá átti, hafi í aprílmánuði verið seld á 6.200 HK dollara fyrir ferfetið, sem sé nánast tvöfalt það verð sem Sjóvá samdi sig út úr samningnum á. „Það hefði nú munað miklu, ekki satt, fyrir Glitni að fara út úr samningnum með umtalsverðum hagnaði í stað 3,2 milljarða taps? Mér er þetta í raun og veru óskiljanlegt. Eins og ég og félagar mínir hér í Hong Kong, sem eru líka í fasteignaviðskiptum, höfum skoðað þetta mál, þá sýnist okkur að því fari fjarri að reynt hafi verið til þrautar að ná hámarksvirði út úr samningnum.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert