Strandi Icesave, strandar allt

Icesave-málið var ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag og það fer ekki  fyrir ríkisstjórn fyrr en í næstu viku. Steingrímur J. Sigfússon segir málið ekki tilbúið, en beðið er þýðinga og frekari álita frá lögfræðingum.

Hann vonast til að málið fáist afgreitt fyrir sumarfrí þingsins en mörg stór mál bíði í endurreisnarstarfinu. Ekki fáist lán erlendis frá nema Icesave ábyrgðirnar nái í gegn. Öll þessi mál verði að skoða í samhengi, ef einn þáttur í endurreisnarstarfinu strandi, þá strandi allir hinir.

Hann segir að hlutskipti þeirra sem taki við verði ekki öfundsvert ef málið verði fellt.  Hann segist telja að þegar menn hafi skoðað gögnin þá komist þeir að sömu niðurstöðu. Hann trúi því að málið fari í gegn. Hann sé ráðherra  í ríkisstjórn sem styðjist við meirihluta á Alþingi. Hann sé að leysa verkefni sem honum hafi verið falið eins vel og honum sé unnt. ,, Ég teldi það yfirgengilegt ábyrgðarleysi, “segir Steingrímur,  ,,ef Sjálfstæðismenn afneituðu öllu sem þeir bera á ábyrgð á í þessu máli.”

Hann segir að réttast væri að spyrja kappana, Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvaða leiðir þeir vildu fara. Hvað þeir hafi planað fyrir Ísland ef þeir ætli að stranda þessu öllu.

Enn er andstaða við frumvarpið innan þingflokks VG og fullyrt er að ríkisstjórnin sé fallin nái það ekki í gegn. Aðspurður um hvort ríkisstjórnin og formennska hans sjálfs í Vinstri grænum sé að veði í þessu máli, svarar hann því til að hann ætli ekki út í neinar getgátur og hann ætli ekki að stilla neinum upp við vegg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert