Erfitt en óumflýjanlegt

Þingmenn samþykktu frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
Þingmenn samþykktu frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum. mbl.is/Eggert

Alþingi samþykkti í dag með 31 atkvæði gegn 16 frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem miðar að því, að staða ríkissjóðs batni um 22,4 milljarða á þessu ári og 63,4 milljarða á því næsta. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að um væri að ræða erfiðar en óumflýjanlegar aðgerðir.  

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við atkvæðagreiðsluna, að sjálfstæðismenn hefðu bent á leiðir til að betrumbæta frumvarpið og það hefði að einhverju leyti verið gett. Hins vegar hefðu sjálfstæðismenn ekki trú á því að þetta frumvarp skili þeim tekjuauka sem að sé stefnt og það gangi gegn meginhugmyndum Sjálfstæðisflokksins um hvernig Íslendingar geta unnið sig út úr vandanum.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að flokkurinn gæti ekki stutt frumvarpið og minnti á tillögur, sem flokkurinn hefði lagt fram í febrúar en ekkert tillit hefði verið tekið til. 

Þá sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, að flokkur hennar styddi ekki þá leið, sem frumvarpið gerði ráð fyrir, til að vinna bug á efnahagsvandanum. Hún sagði það stefnu Borgarahreyfingarinnar að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætti ekki að ráðskast með ríkisfjármál en fingraför hans væru á frumvarpinu. Þá væri flokkurinn algerlega á móti því að skera niður í velferðarkerfinu.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ríkissjóður væri nú rekinn með 500 milljóna króna tapi á dag. Frumvarpið væri mikilvægt skref í þá átt að snúa þeirri þróun við en þar væri verið að falla frá útgjöldum og skattalækkunum sem ákveðnar voru í hámarki góðærisins og sagan sýni að Íslendingar hefðu ekki efni á.

Meðal þess sem frumvarpið kveður á um er eftirfarandi:

  • 8% tímabundinn viðbótarskattur verður lagður á tekjur einstaklings yfir 700 þúsund. 
  • 5% tímabundinn viðbótarskattur verður lagður á fjármagnstekjur umfram 250 þúsund krónur. 
  • Tryggingargjald verður hækkað í 2,21% og gjald í ábyrgðarsjóð launa hækkar í 0,2%.
  • Hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði lækkar og verður 350.000 krónur.
  • Grunnlífeyrir skerðist vegna lífeyrissjóðstekna og  skerðingarhlutfall tekjutryggingar hækkar.

Ferlill málsins á Alþingi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert