Getum staðið við Icesave

Gylfi Magnússon ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.
Gylfi Magnússon ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. mbl.is/Golli

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi að fullyrðingar um að Íslendingar geti ekki staðið við Icesave-skuldbindingarnar, væru hreinlega rangar.  

Gylfi sagði að útflutningstekjur Íslendinga á hverju ári hefðu verið ríflega 5 milljarðar evra á ári og vaxið um 8% að meðaltali á ári undanfarin 15 ár.

Ekkert benti til annars en þessar tekjur dugi vel til að standa í skilum um það sem umfram stendur í Icesave-skuldbindingunum þegar búið væri að selja eignir Landsbankans og vextina að auki.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vísaði í fyrirspurnartíma til þess að Gylfi hefði kynnt Ísland sem hið nýja Enron og talað um að Ísland verði Kúba norðursins ef Alþingi samþykkir ekki Icesave-samningana. 

Spurði Sigmundur Davíð hvernig ráðherrann leyfði sér að viðhafa slíkan hræðsluáróður, sem væri ekki sæmandi ríkisstjórn.

Gylfi sagði, að margt í aðdraganda íslenska bankahrunsins ætti sér sameiginlega fleti með því sem gerðist í aðdraganda hruns bandaríska fyrirtækisins Enron. Það væri einfaldlega hreinskilni gagnvart umheiminum að viðurkenna þetta.

Samlíkingin um Kúbu væri af sama meiði. Ef Íslendingar stæðu ekki við  við það sem þeir hefðu lofað myndu engir vilja eiga í viðskiptum við þjóðina frekar en aðra óreiðumenn. „Það er einfaldlega þannig, að það vill enginn lána landi, sem gerir ekki upp sínar skuldir, það vill enginn eiga í viðskiptum við það, það er einfaldlega ekki viðræðuhæft," sagði Gylfi. 

Hann sagði að það lægi fyrir, fyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og það fé sem henni fylgdi væri háð því, að Íslendingar standi í skilum, þar á meðal með Icesave. Aðstoðin frá Norðurlöndunum væri einnig háð því að Íslendingar væru ekki óreiðufólk heldur fólk sem stendur við gefin heit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert