Icesave-skuldbindingarnar ekki hættulegastar

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á borgarafundi í Iðnó í kvöld, að það yrðu ekki Icesave-skuldbindingarnar, sem myndu knésetja Ísland, ef svo illa færi. „Það eru aðrir nærtækari hlutir sem eru okkur hættulegri," sagði Steingrímur.

Hann spurði síðan hvort Íslendingar ætluðu að berjast og reyna að komast á fæturnar á ný af eigin rammleik og á eigin forsendum sem þjóð eða hvort þeir ætluðu að gefast upp. „Ég neita því," sagði Steingrímur, sem lagði áherslu á að samkomulagið sem gert var við Breta og Hollendinga hefði verið skásti kosturinn í stöðunni. „Ég tel að okkar mál fari öll meira og minna í klessu ef þetta strandar," sagði hann.

Fullt er út úr dyrum á fundinum þar sem frummælendur voru auk Steingríms Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur, og Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, sem m.a. sagði, að útrásarblekkingin hefði verið samviskulaus aðför að efnahag landsins. Einar Már sagði, að breytti engu hvort Icesave-samningurinn væri góður eða slæmur: Hann væri í eðli sínu rangur og fjárglæframennirnir ættu að borga skuldir sínar sjálfir.

Helgi Áss sagði að samtökin InDefence, sem hann var fulltrúi fyrir á fundinum, vildi semja um Icesave-skuldbindingarnar en þau væru andvíg þeim Icesave-samningi, sem nú lægi fyrir. „Við krefjumst betri samnings," sagði Helgi Áss.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert