Skynja ekki alvöru málaflokksins

„Niðurstaða okkar er að ríkisstjórn Íslands skynji engan veginn alvöru þessa málaflokks né hlutverk Vísinda- og tækniráðs. Það er miður,“ segja tíu prófessorar og háskólakennarar í grein í Morgunblaðinu í dag. Þeir gagnrýna skipun í nýtt Vísinda- og tækniráð og segja ljóst að vísinda- og nýsköpunarreynsla margra ráðsliða sé lítil og jafnvel engin.

Forsætisráðherra skipaði í síðustu viku nýtt Vísinda- og tækniráð til næstu þriggja ára. Ráðinu er meðal annars ætlað að marka stefnu stjórnvalda á sviði vísinda- og tæknimála en umfjöllun á hvoru sviði er undirbúin af vísindanefnd og tækninefnd.

Í nýja ráðinu eiga sæti Ari Kristin Jónsson, Inga Þórsdóttir, Sigríður Halldórsdóttir og Stefán Ólafsson sem tilnefnd eru af samstarfsnefnd háskólastigsins, Stefán Úlfarsson og Þórunn S. Jónsdóttir sem tilnefnd eru af Alþýðusambandi Íslands, Hilmar Bragi Janusson og Pétur Reimarsson sem tilnefndir eru af Samtökum atvinnulífsins, Guðrún Nordal sem tilnefnd er af menntamálaráðherra, Þorsteinn Ingi Sigfússon sem tilnefndur er af iðnaðarráðherra, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir og Sveinn Margeirsson sem tilnefnd eru af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Unnur Þorsteinsdóttir sem tilnefnd er af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Kristín Svavarsdóttir sem tilnefnd er af umhverfisráðherra og Dagný Halldórsdóttir og Jón Bragi Bjarnason sem skipuð eru án tilnefningar.

Auk þess eiga forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og menntamálaráðherra föst sæti í ráðinu og er forsætisráðherra formaður ráðsins.

Í Morgunblaðsgreininni segir háskólafólkið að ráðið skipi stórt og mikilvægt hlutverk, sérstaklega nú þegar horfa þurfi til framtíðar og endurskipuleggja eigi allt vísinda-, tækni -og menntunarstarf landsins þannig að það skili árangri til framtíðar.

„Því skyldi ætla að ríkisstjórnin myndi skipa í ráðið þungavigtarfólk úr íslensku vísinda- og tæknistarfi, fólk með alþjóðlega reynslu af vísindastörfum eða farsælan feril í stjórnun vísindamála. Þótt sumir af þeim sem nú hafa verið skipaðir í ráðið hafi góða vísinda- eða nýsköpunarreynslu er hins vegar ljóst að þekking margra ráðsliða er lítil og jafnvel engin. Hér er auðvitað ekki við viðkomandi einstaklinga að sakast; þeir eru sjálfsagt hið vandaðasta fólk sem skorast ekki undan þegar ráðherra kallar það til verka. Metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar vekur hins vegar undrun okkar og jafnframt spurningar um áhuga og skilning stjórnvalda á málaflokknum,“ segir í greininni.

Morgunblaðsgreinin í heild

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert