Bíltæknirannsóknir verði á Selfossi

Þau skrifuðu undir samninginn, frá vinstri: Karl Ragnars, Kristján L. …
Þau skrifuðu undir samninginn, frá vinstri: Karl Ragnars, Kristján L. Möller, Ragna Árnadóttir og Oddur Árnason.

Samningur um fjármögnun á búnaði til bíltæknirannsókna vegna umferðaslysa undirritaður. Aðsetur rannsóknanna verður hjá lögreglunni á Selfossi.

Samgönguráðherra og Umferðarstofa annars vegar og dómsmálaráðherra og lögreglustjórinn á Selfossi hins vegar skrifuðu í dag undir samning um fjármögnun á búnaði til bíltæknirannsókna vegna umferðarslysa.

Kemur þetta fram á vef samgönguráðuneytisins.

Kaupin á búnaðinum eru fjármögnuð með eingreiðslu Umferðarstofu að upphæð allt að 6 milljónir króna. Kristján L. Möller samgönguráðherra og Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, skrifuðu annars vegar undir samninginn og hins vegar Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra og Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Selfossi. Öll lýstu þau sérstakri ánægju með að rannsóknaraðstaðan skuli nú komast í gagnið enda sé slík aðstaða mjög mikilvæg við rannsókn á bílum eftir umferðarslys sem bæði lögregla og Rannsóknarnefnd umferðarslysa sinna. Gert er ráð fyrir að önnur lögregluembætti geti einnig nýtt sér aðstöðuna á Selfossi.

Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, gerði síðan grein fyrir þýðingu þess að geta fengið enn betri niðurstöður við rannsóknir á orsökum alvarlegra umferðarslysa enda sé á grundvelli þeirra unnt að vinna að viðeigandi forvörnum.

Við rannsókn og greiningu á orsökum umferðarslyss eru kannaðir þrír þættir sem bæði samverkandi og einir sér geta valdið slysum. Þar má fyrst nefna ástand ökumanns og möguleg mistök hans, ástand og umhverfi vega og síðast en ekki síst ástand ökutækisins, en sú rannsókn getur ekki aðeins varpað ljósi á mögulega bilun eða galla ökutækisins heldur jafnframt sýnt fram á líklega áhættuhegðun ökumannsins. Ástand ökutækis eftir slys er oft mikilvægasti vitnisburðurinn um það hvað olli slysinu. Mælingar á afmyndun ökutækja eftir árekstur gefa vísbendingu um þá krafta sem losnuðu úr læðingi við áreksturinn en það eru m.a. upplýsingar sem notaðar eru til að reikna út hraða í slysum.

Ábendingar byggjast á bíltæknirannsóknum

Margar ábendingar Rannsóknarnefndar umferðarslysa byggjast á bíltæknirannsóknum. Þessum ábendingum og tillögum í öryggisátt hefur nefndin vísað til samgönguráðuneytisins, Umferðarstofu eða annarra viðeigandi aðila. Sem dæmi má nefna að árið 2006 rannsakaði RNU banaslys, harða framanákeyrslu, þar sem bíltæknirannsókn leiddi í ljós að ryðskemmdir og haldlitlar viðgerðir höfðu valdið styrkleikamissi í bifreið og átti það veigamikinn þátt í láti ökumanns. Hafði ökutækið fengið aðalskoðun í þessu bágborna ástandi og gerði nefndin sérstaka athugasemd vegna málsins.

Með þessum samningi er lagður grunnur að kaupum á sérhæfðum tækjabúnaði til bíltæknirannsókna en slíkan búnað og aðstöðu hefur skort hér á landi. Lögreglustjórinn á Selfossi leggur til húsnæðið og mun embættið starfrækja rannsóknarsetur bíltæknirannsókna á Selfossi.

Rannsóknasetrinu er heimilt að taka við búnaði sem einstaklingar, fyrirtæki eða félög óska eftir að leggja rannsóknarsetrinu til í þágu umferðaröryggis, enda séu slík framlög kvaðalaus af hálfu gefanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert