115 milljarða erlend bílalán

Íslenski bílaflotinn blés nokkuð út á umliðnum árum.
Íslenski bílaflotinn blés nokkuð út á umliðnum árum. Ómar Óskarsson

Heildarupphæð bílalána í erlendri mynt að hluta eða í heild á Íslandi eru 115 milljarðar króna. Þetta kom fram í svari Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar um bílalán í erlendri mynt, á Alþingi í dag.

Samkvæmt úttekt Seðlabanka Íslands, sem gerð var fyrir viðskiptaráðuneytið, eru 40.414 manns með bílalán í erlendri mynt að öllu leyti eða að hluta. Sagði Gylfi að heildarverðmæti bílanna, sem standa eiga sem veð fyrir þessum lánum, sé nánast ómögulegt að meta heildstætt, enda fari það eftir framboði og eftirspurn á markaði, þróun gengis og fleiri þáttum.

Kom fram hjá viðskiptaráðherra að 11% heimila þurfi að verja yfir 30% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir af bílalánum. Hins vegar sé mjög mismunandi hversu langt sé liðið á þann lánstíma og mörg þessi lán leysist í sjálfu sér með því að verða greidd upp að fullu.

Sagði Gylfi að samstarf ráðuneyta sé komið í gang til að kanna hvort hægt sé að grípa til aðgerða vegna erlendra bílalána. Héldu fulltrúar ráðuneyta fund með bílafjármögnunarfyrirtækjum í gær. Verða niðurstöður þessarar könnunar birtar um leið og þær liggja fyrir, að sögn ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert