Óseldar 4.400 íbúðir

Hagdeild ASÍ spáir 40% lækkun á raunvirði fasteigna
Hagdeild ASÍ spáir 40% lækkun á raunvirði fasteigna mbl.is/Heiðar

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði dróst saman um tæpan fjórðung í fyrra en þá hafði íbúðafjárfesting ekki dregist saman á milli ára síðan 1997. Áframhaldandi mikill samdráttur er framundan í byggingariðnaði.

Í uppsveiflu undanfarinna ára var íbúðafjárfesting langt umfram þörf markaðarins og framboðið á nýju íbúðarhúsnæði því umtalsvert. Áætlað er að birgðir óseldra íbúða séu nú um 4.400 íbúðir og hafa þær ríflega tvöfaldast frá því að best lét á fasteignamarkaði á haustmánuðum 2007. Þessu til viðbótar eru vextir háir, ráðstöfunartekjur fara lækkandi og óvissa er mikil i efnahagslífinu, sem allt eru þættir sem draga úr eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði.

Samspil mikils framboðs og minnkandi eftirspurnar endurspeglast í verðþróun íbúðarhúsnæðis, en íbúðaverð hefur lækkað um tæplega 13% að nafnverði frá því það náði hámarki haustið 2007 eða um tæp 28% að raunvirði.

Raunverð fasteigna lækki um 40%

„Íbúðaverð mun áfram lækka á næstu misserum og spáir hagdeildin því að raunverð íbúðahúsnæðis lækki um tæp 40% frá því sem það var hæst árið 2007 og þar til það lágmarkinu verður náð í upphafi árs 2011.

Við gerum ráð fyrir því að fjárfestingar í nýju íbúðarhúsnæði dragist saman um tæpan helming á þessu ári og enn um tæp 11% á næsta ári. Árið 2011 aukast íbúðafjárfestingar á ný og vaxa þá um tæp 8% en útlit er fyrir lítilsháttar samdrátt á árinu 2012."

Hagspáin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert