Segja fjárlög mannréttindabrot

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, telur tvær greinar nýrra fjárlaga skerða mannréttindi. Annars vegar er þar átt við breytingu á lögum um meðferð einkamála og hins vegar breytingu á lögum um sóknargjöld. Sendi félagið Alþingi umsögn um frumvarpið þann 29. júní.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Siðmennt. 

Siðmennt vill meina að með því að þrengja ákvæði laga um framlög til gjafsókna sé fjárvana almenningi gert erfiðara fyrir að sækja rétt sinn fyrir dómi. Með þessu séu mannréttindi borgaranna skert. Þá þykir það skjóta skökku við að núverandi ríkisstjórn feti í fótspor fyrri stjórnar að þessu leyti en í tíð hennar hafi úrræðin verið skert mikið.

Breytingar á lögum um sóknargjöld fela í sér að þeir sem standa utan trúfélaga greiða ekki lengur skatt til Háskóla Íslands í stað sóknargjalda heldur beint í ríkissjóð. Þennan skatt kallar Siðmennt refsiskatt. Í tilkynningu Siðmenntar segir:

„Siðmennt telur að þar sé einnig um brot á mannréttindum að ræða. Þeir sem ekki eru skráðir í trúfélög eiga ekki að þurfa að greiða félagsgjöld til ríkisins.

Í áliti sínu minnir Siðmennt einnig á eitt af stefnumiðum sínum að ríkið eigi ekki að sjá um innheimtu félagsgjalda trúfélaga í gegnum skattakerfið í formi sóknargjalda. Trúfélög geta auðveldlega séð um sína innheimtu sjálf eins og öll önnur frjáls félagasamtök gera.“

Einnig minna samtökin Alþingismenn á að það sé skylda þeirra að standa vörð um mannréttindi. Yfirstandandi efnahagsþrengingar réttlæti ekki skerðingu þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert