Fjör á Hamingjudögum á Hólmavík

Á fimmta hundrað manns voru við varðeld og brekkusöng á Hamingjudögum á Hólmavík í gærkvöld þar sem prestshjónin Sigga og Gulli héldu uppi fjörinu ásamt Gunnari Þórðarsyni.

Stórtónleikar voru með Gunnari sem er Hólmvíkingur að uppruna. Þá léku Bjarni Ómar og Stefán Jónsson fyrir dansi á Café Riis. Á diskóteki fyrir 12 til 16 ára hélt DJ Danni hélt uppi stuðinu. Fjölmennt mótorkrossmót var haldið í Skeljavíkurbraut í gær.

Að sögn björgunarsveitarmanna var allt með friði og spekt á tjaldsvæðinu í nótt en búist er við að gestum Hamingjudaga fjölgi jafnt og þétt í dag, að sögn framkvæmdastjóra daganna, Kristínar Sigurrósar Einarsdóttur.

Hamingjudansleikur verður í kvöld með hljómsveitinni Von. Á morgun verða furðuleikar í Sauðfjársetri á Ströndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert