Fréttaskýring: Innstæðutryggingar ná ekki yfir hrunið

Þeir sem vilja rukka okkur leita til dómstóls hér á …
Þeir sem vilja rukka okkur leita til dómstóls hér á landi, sagði Davíð Oddsson í viðtali við Morgunblaðið. Ríkið á ekki að borga að óþörfu. mbl.is/Golli

Hvergi er minnst á ríkisábyrgð í skýrslu um innstæðutryggingakerfi sem unnin var undir stjórn Jean-Claude Trichet, núverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu.

Skýrslan var unnin árið 2000 þegar Trichet var bankastjóri franska seðlabankans, og er hún aðgengileg á vef Banque France, franska seðlabankans. Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, vísaði til skýrslunnar í viðtali við Morgunblaðið á sunnudag, og hefur Tómas I. Olrich, sendiherra í Frakklandi, staðfest að hafa sent eintak af þessari skýrslu til utanríkisráðuneytisins.

Í skýrslunni segir raunar að reglum Evrópusambandsins um innstæðutryggingar, sem Íslendingar innleiddu á grundvelli EES-samningsins, sé alls ekki ætlað að eiga við kerfislægt bankahrun. Innstæðutryggingakerfið hafi heldur ekki burði til slíks. Til þess þurfi að beita öðrum aðgerðum, sem hljóti að falla inn á verksvið annarra hluta „öryggisnetsins“, svo sem seðlabanka eða stjórnvalda viðkomandi ríkis.

Meiriháttar veikleiki

Hvort eða hvernig þessir aðilar skulu bregðast við er hins vegar ósagt látið. Viðbrögð stjórnvalda eða hvers kyns björgunaraðgerðir vegna hruns, eins og þess sem hér hefur orðið, er ekki innan rammans sem reglurnar fjalla um.

Fjármálakreppan sem þjakar nú heimsbyggðina „hefur sýnt að núverandi fyrirkomulag innstæðutryggingakerfa í aðildarríkjum var meiriháttar veikleiki í bankaregluverki Evrópusambandsins“. Þetta segir í skýrslu sem unnin var undir stjórn Jacques de Larosiere fyrir framkvæmdastjórn ESB og kom út nú í febrúar.

Þar segir ennfremur að þrátt fyrir að nú liggi fyrir tillaga til að bæta þetta fyrirkomulag, sé enn óleyst hvað skuli taka til bragðs ef innstæðutryggingakerfið stendur ekki undir skuldbindingunum líkt og gerst hefur á Íslandi.

Fórnarlamb gloppu í kerfinu

Af hálfu sérfræðinga Evrópusambandsins virðist því ljóst að gloppa er í kerfinu og að íslenska ríkið er fórnarlamb þeirrar óvissu sem gloppan skapar. Því má spyrja hvort yfir höfuð eigi við að vísa til evrópska innstæðutryggingakerfisins þegar tala eða semja á um glötuð innlán í íslenskum bankastofnunum.

Íslensk stjórnvöld hafa hingað til hafnað því að fara með Icesave-málið fyrir dómstóla til að skera úr um hvort ábyrgðin skuli vera á þeirra herðum, m.a. á þeim forsendum að viðsemjendur, stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi, taki það ekki í mál. Allmargir lögfræðingar sem og aðrir landsmenn hafa mótmælt þessari afstöðu frá upphafi og má byggja þau að mörgu leyti á þessari spurningu:

Ef innstæðutryggingasjóðurinn á ekki við í tilviki bankahruns, hver annar en dómstóll getur þá sagt til um hvort íslenska ríkið eigi að borga Icesave-skuldirnar eður ei?

S&S

Um hvað snúast innstæðutryggingarnar?

Tilskipun ESB um að tryggja innstæður í bönkum er frá árinu 1999. Hún á að tryggja fjárhagslegan stöðugleika og sjá til þess að innstæðueigendur tapi ekki óheyrilegum fjárhæðum þótt fjármálastofnun þurfi að loka.

Hvernig tengjast þær Icesave-skuldunum?

Þar sem fjártjón Hollendinga og Breta vegna Icesave er hluti af kerfislægu hruni íslensku bankanna, má ætla að tilskipunin um innstæðutryggingar eigi ekki við, ljóst þykir að það kerfi ráði ekki við allsherjarhrun. Þetta kemur fram í skýrslum Trichet og de Larosiere, sem báðar eru opinberar og aðgengilegar á vefnum.

Hví þá að borga?

Íslensk stjórnvöld hafa hafnað dómstólaleiðinni en óljóst er af hverju „við“ ættum að borga. Allmargir lögfræðingar mótmæla þessari afstöðu, nauðsynlegt sé að skera fyrst úr um hvort ríkið sé greiðsluskylt eður ei.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert