Mjög áhugavert verkefni

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

„Ég er búinn að tala fyrir þessu verkefni í tvö ár. Það er ánægjulegt að sjá það nálgast veruleikann,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, um fyrirhugaða kísilverksmiðju í Helguvík. Kynningarfundur Umhverfisstofnunar vegna útgáfu starfsleyfis verksmiðjunnar verður í Duus-húsi í Reykjanesbæ á morgun.

Árni sagði gert ráð fyrir tveimur ofnum í verksmiðjunni sem þurfi samtals um 55 MW raforku. Hitaveita Suðurnesja hefur lofað að útvega orku fyrir annan ofninn. „Það nægir fyrirtækinu til að leggja af stað, en við munum auðvitað vinna að því að tryggja orkuna frekar,“ sagði Árni. Búið er að útvega verksmiðjunni lóð og umhverfismat liggur fyrir.

„Verkefnið er mjög áhugavert, ekki síst önnur skref þess sem snúa að fullvinnslu á vöru. Þarna er um frumframleiðslu að ræða, að breyta kvartsefnum í kísilsand. Síðar er gert ráð fyrir fullvinnslu á sólarrafhlöðum og mjög áhugaverðum verkefnum sem ég veit að verður hægt að tengja samstarfi á Suðurnesjum og Suðurlandi,“ sagði Árni.

Ef hægt verður að hefja verkefnið í haust verða áhrifin af því fljót að koma fram, að mati Árna. Hann sagði verkefnið mjög mikilvægt samhliða mun viðameiri framkvæmdum við væntanlegt álver í Helguvík. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert