Flest börn í beltum

Einungis 3% barna eru ekki neinn öryggisbúnað á leið til leikskóla, samkvæmt könnun á öryggi barna í bílum. Á tólf ára tímabili hefur orðið mikil breyting þar á en árið 1997 voru 32% barna án nokkurs öryggisbúnaðar í bílum.

Slysavarnafélagið Landsbjörg og Umferðarstofa hafa ásamt fleirum staðið að könnun á öryggi barna í bílum ár hvert frá árinu 1997.

Þegar skoðuð er þróun mála kemur í ljós að tilfellum þar sem enginn búnaður er notaður hefur fækkað mikið, nánar tiltekið úr  32% í 3% í ár.  Svipaður fjöldi barna er nú og í fyrra í ófullnægjandi búnaði þ.e. í engum eða aðeins með öryggisbeltin. 14,2% í fyrra en 12,8% í ár. Því reyndust nú 87,2% barna vera í viðeigandi öryggisbúnaði í bíl á leið til leikskóla.

Þeir staðir sem komu einna best út í þessari könnun voru Vopnafjörður, Akureyri, Húsavík,  Fáskrúðsfjörður og Bíldudalur af landsbyggðinni, en Mosfellsbær og Seltjarnarnes á höfuðborgarsvæðinu.

Algengara er að strákar séu ekki í fullnægjandi öryggisbúnaði en stúlkur. 14,2% stráka voru án búnaðar eða eingöngu með bílbelti á móti 11,4% stúlkna. 3,5% stráka voru algerlega lausir á móti 2,6% stúlkna.

15,8% ökumanna ekki í belti

Notkun ökumanna á öryggisbeltum við komu að leikskólum var einnig könnuð og að þessu sinni voru 15,8% ökumanna án belta. Þegar er litið á kynjamismun þá er 19,8% karla og 12,9% kvenna án öryggisbelta í ár. Þetta er mun verri útkoma en í fyrra en þá voru 13,4% ökumanna án belta, 17,9% karla og 10,4% kvenna. Þegar teknar eru saman tölur um öryggisbeltanotkun ökumanna undangengin ár kemur í ljós að notkunin hefur aukist hjá báðum kynjum, að því er segir í tilkynningu.

Einnig kom fram að beltanotkun ökumannsins hafði áhrif á það hvort barnið var í viðeigandi verndarbúnaði. Börn þeirra ökumanna sem notuðu ekki bílbelti voru laus í um 12,7% tilfella en í 1,4% tilfella hjá þeim ökumönnum sem voru í bílbelti. Þetta segir sína sögu um öryggisviðhorf þeirra fullorðnu en þetta er þú betri útkoma en í fyrra (14,5% og 1,7%).
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert