Hollensk stjórnvöld afneita afskiptum

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Retuers

Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands hefur sent Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra bréf þar sem fram kemur að hollensk stjórnvöld muni ekki eiga aðild að hugsanlegum málaferlum hollenskra innistæðueigenda á
hendur íslenskum stjórnvöldum.

Í bréfinu kemur ennfremur fram að Ísland sé virtur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu og sem lýðræðis- og réttarríki búi Ísland við sjálfstætt og óháð réttarkerfi. Á grundvelli þess telur fjármálaráðherra Hollands
að hollenskir innistæðueigendur myndu fá réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum á Íslandi. Afskipti hollenskra yfirvalda af slíkum málum væru því óþörf.

Líkt og fram kom á mbl.is á sunnudag undirbúa tæplega tvö hundruð hollenskir Icesave-innistæðueigendur lögsókn gegn Íslandi.

Talsmaður hópsins, Gerard van Vliet, segir í samtali við Morgunblaðið að ný skýrsla hollenskra stjórnvalda staðfesti að ábyrgðin vegna Icesave sé að fullu hjá íslenska fjármálaeftirlitinu.

„Við munum ræða við íslensk stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila, en erum tilbúin að sækja rétt okkar fyrir EFTA og Evrópusambandinu.“ Van Vliet, sem er staddur hér á landi, segir að heildarfjárhæðin nemi um sjö milljörðum króna.

„Því miður þykir mér eins og tilfinningar ráði meira förinni meðal íslenskra ráðamanna en heppilegt er,“ segir hann og kveðst ennþá verða var við vanþekkingu á málefnum hollenskra innistæðueigenda í Icesave meðal ráðamanna. Í tilkynningu frá hópnum segir að hollenski seðlabankinn hafi reynt að koma í veg fyrir frekari stækkun Icesave en bankinn hafi fengið misvísandi skilaboð og hafi verið virtur að vettugi þegar hann hafi reynt að grípa í taumana.

Hollendingarnir telja að sér sé mismunað á grundvelli þjóðernis, en íslenskir sparifjáreigendur hafi fengið fjármuni sína greidda út af nýja Landsbankanum ólíkt þeim hollensku þrátt fyrir að þeir séu allir viðskiptavinir sama bankans. Um sé að ræða brot á alþjóðlegum neytendarétti.

Van Vliet segir innistæðueigendurna við það að missa þolinmæðina og hafi þeir fullan stuðning hollenska þingsins í málinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert