Kom sér fyrir í kúlutjaldi

Í þessu tjaldi hefur kona á miðjum aldri komið sér …
Í þessu tjaldi hefur kona á miðjum aldri komið sér fyrir og búið undanfarnar 5 vikur við heldur þröngan kost. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á auðri lóð við Ánanaust stendur lítið kúlutjald og garðstólar faldir milli illgresis og ætihvannar. Við fyrstu sýn mætti halda að þar hefði sérkennilegur staður verið valinn fyrir söluútstillingu en við nánari skoðun gefa tómar matarumbúðir og föt á snúru annað til kynna.

Raunin er sú að í þessu tjaldi hefur kona á miðjum aldri komið sér fyrir og búið undanfarnar 5 vikur við heldur þröngan kost.

Áður sótti hún meðal annars skjól í Konukoti, þar til hún kaus að koma sér heldur fyrir á eigin vegum á hinum svokallaða Héðinsreit, þar sem áður stóð til að reisa lúxusíbúðir fyrir eldri borgara. Kúlutjaldið er öllu lágreistara en íbúðirnar sem deiliskipulagið gerði ráð fyrir en það hefur þó ekki farið fram hjá íbúum í nærliggjandi húsum við Vesturgötu sem hafa ítrekað haft samband við bæði lögreglu og félagsmálayfirvöld vegna ástandsins á reitnum.

Að sögn íbúa sem Morgunblaðið ræddi við fara börnin í nágrenninu ekki jafnfrjálslega ferða sinna og áður vegna ástandsins. Þá sé það lítil prýði við áður niðurníddan reit að þar rísi byggð heimilislausra.

Lögreglan hefur hinsvegar ekki séð ástæðu til beinna afskipta og segist í raun ekki hafa forsendur til að grípa inn í mál sem þessi nema hætta stafi af fólkinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert