Öryggi starfsmanna Kaupþings ógnað

Kaupþing.
Kaupþing. Reuters

Engar ákvarðanir hafa verið teknar um afskriftir á skuldum Björgólfsfeðga við Nýja Kaupþing. Segir í tilkynningu frá bankanum að öryggi starfsmanna hafi verið ógnað og því sé bankanum skylt að upplýsa um það en óheimilt sé með lögum að tjá sig opinberlega um málefni einstakra viðskiptavina.

„Vegna umfjöllunar fjölmiðla í gær og í dag um uppgjör skulda ákveðinna lántakenda hjá Nýja Kaupþingi óskar bankinn eftir að taka fram að starfsmönnum, bankastjóra og stjórn bankans er óheimilt skv. lögum að tjá sig opinberlega um málefni einstakra viðskiptavina.

Í ljósi þess að öryggi starfsmanna bankans hefur verið ógnað telur bankinn sér skylt að upplýsa eftirfarandi: Í máli sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hafa engar ákvarðanir um afskriftir verið teknar. Bankinn ítrekar að í hverju máli er unnið eftir ítarlegum verklagsreglum og að lögð er mikil áhersla á sanngjarna málsmeðferð öllum til handa," að því er segir í tilkynningu frá Nýja Kaupþingi.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að  Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson hafi gert Nýja Kaupþingi tilboð um að greiða fjörutíu til fimmtíu prósent af tæplega sex milljarða skuld þeirra feðga við bankann. Þeir feðgar vilja borga 500 milljónir af skuld sinni á þessu ári. Skuldin er upphaflega tilkomin vegna kaupa eignarhaldsfélags þeirra, Samsonar, á 45,8 prósenta hlut ríkisins í Landsbankanum árið 2003, samkvæmt Fréttablaðinu.

Krafa Kaupþings á hendur Samson er 4,9 milljarðar króna án dráttarvaxta en kröfulýsingin í þrotabú Samsonar er um 5,9 milljarðar með dráttarvöxtum og öðrum áföllnum kostnaði, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er tilboð þeirra feðga talið raunhæft innan Kaupþings, og reiknað með að það verði lagt fyrir stjórn bankans.

Vilhjálmur Bjarnason, formaður félags fjárfesta, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi og í Kastljósi Sjónvarpsins, að ef felldar verði niður skuldir þeirra feðga, um þrjá milljarða króna, þá gæti skollið á borgarastyrjöld hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert