Erfitt mál fyrir VG

Steingrímur J. Sigfússon segir þjóðina klofna í ESB málinu.
Steingrímur J. Sigfússon segir þjóðina klofna í ESB málinu. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon sagði á Alþingi í dag að ESB málið væri bæði stórt og erfitt og hefði reynst flokki sínum erfitt. VG hafi mótað þá flokkslegu stefnu að ekki þjónaði hagsmunum landsins að ganga inn í ESB. Hins vegar hafi hlutirnir þróast og að innan raða hans væru nú fleiri sem vildu láta á reyna hvað væri í boði.

Steingrímur sagði þjóðina klofna í málinu; flokksmenn allra stjórnmálaflokkanna væru klofnir í því og sömuleiðis væri kjósendabakland allra flokkanna skipt. Atvinnulífið væri klofið í afstöðu sinni og skoðanir væru sömuleiðis skiptar innan verkalýðshreyfingarinnar í málinu.

Hins vegar væri ljóst að málið væri á dagskrá og að það muni ekki hverfa, hverjar sem lyktir þess verði. Flokkur hans hafi gert erfiða málamiðlun þegar gengið var til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna. „Sumir myndu kalla það fórn. Og menn spyrja hvernig má það vera?"

Hann rakti að ríkisstjórnin hefði ekki orðið til án þessarar málamiðlunar og taldi sennilegt að svipuð staða hefði verið uppi í málinu hefði fyrri ríkisstjórn „lifað af."

Miklu máli skipti að meirihluti þingmanna virðist nú telja að að því sé komið að láta á aðildarviðræður reyna. Málið hafi alltaf verið umdeilt hjá þeim þjóðum sem hafi gengið til viðræðna, svo staðan nú væri ekkert einsdæmi. Hann spurði hvort það væri slæmt að vafi, fyrirvarar og gagnrýni væri uppi meðal stjórnarliða þegar lagt væri upp í þessa vegferð? „Liði mönnum betur með að hér hefði náð saman eindreginn aðildarumsóknarhópur sem hefði staðið heill á bak við að keyra landið inn í ESB? Gæti ekki verið betra að skipt sjónarmið séu innan ríkisstjórnar og á Alþingi?"

Steingrímur sagði VG áskila sér allan rétt til að hafna samningnum og að leggja til að samningaviðræðum verði hætt hvenær sem væri. Hann taldi best að byrja á að ræða erfiðustu málin, s.s. sjávarútveg, landbúnað og gjaldeyrismál. Kæmi í ljós að ekki fengist ásættanleg niðurstaða í þau mál væri ástæðulaust að halda viðræðunum áfram.

Hann varaði þó við því að menn teldu að í aðild að ESB gæti falist lausn á okkar vanda landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert