Reykjalundur-plastiðnaður í þrot

Mynd Mosfellingur

Landsbankinn tekur að öllum líkindum yfir rekstur Reykjalundar-Plastiðnaðar í Mosfellsbæ eftir helgi. Fyrirtækið skuldar um 1.200 milljónir króna og rann greiðslustöðvun fyrirtækisins út í dag. Ekki var óskað eftir framlengingu greiðslustöðvunar og verður beiðni um gjaldþrotaskipti væntanlega lögð fram á mánudag. Skömmu fyrir mánaðamót var öllu starfsfólki sagt upp, samtals um 45 manns.

Núverandi stjórnarformaður hefur, fyrir hönd fyrirtækisins, kært fyrrverandi stjórnendur til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir fjárdrátt og skjalafals. Kæran var lögð fram fyrir nokkrum dögum. Samkvæmt heimildum mbl.is lýtur kæruefnið m.a. að ofteknum launum upp á milljónir króna.

Reykjalundur-plastiðnaður ehf. var stofnað í maí 2004 en fyrirtækið tók þá yfir rekstur plastiðnaðarins sem rekinn hafði verið að Reykjalundi allt frá því um miðja síðustu öld. Höfuðstoðvar fyrirtækisins eru í 4500 fm. húsnæði að Reykjalundi í Mosfellsbæ. Þar eru reknar röraverksmiðja og umbúðaverksmiðja, sem m.a. sinnir mjólkuriðnaðinum. Þá flytur fyrirtækið inn lagnaefni og umbúðir.

Leikfangainnflutningur sem var á hendi Reykjalundar-Plastiðnaðar var fluttur í nýtt fyrirtæki fyrir ári en meðal þess sem flutt var inn voru vörur frá LEGO.

Fyrir liggur að stærsti lánardrottinn Reykjalundar-plastiðnaðar, Nýi Landsbankinn mun taka yfir reksturinn og selja hann nýjum aðilum svo fljótt sem verða má. Nokkrir hafa þegar sýnt fyrirtækinu áhuga en ekki er reiknað með að neinn úr núverandi eigendahópi komi að áframhaldandi rekstri. Skuldir fyrirtækisins nema nú 1.200 til 1.300 milljónum króna en veltan í fyrra var um 900 milljónir.

Rekstrarörðugleikar fyrirtækisins eiga rætur sínar að rekja til bankahrunsins en stór hluti lána fyrirtækisins var í erlendri mynt og við hrunið uxu skuldirnar gríðarlega.

Í Mosfellingi, bæjarblaði Mosfellsbæjar er rætt við nokkra starfsmenn Reykjalundar-plastiðnaðar. Þeir segjast lítið vita um framhaldið, alger óvissa ríki meðal starfsfólks. Nokkrir eru þegar farnir að leita sér að vinnu og einhverjir hafa fengið vinnu.

Heimasíða Reykjalundar-Plastiðnaðar

Vefsíða Mosfellings

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert