Viðræður skera úr um hvað Íslandi býðst

Jóhanna Sigurðardóttir segir mikilvægt að tryggja sem best upplýsingagjöf til …
Jóhanna Sigurðardóttir segir mikilvægt að tryggja sem best upplýsingagjöf til almennings vegna ESB. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í umræðum á Alþingi að þó að meirihluti þingsins komist að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu þýddi það ekki endilega að þeir væru sammála um að innganga í sambandið væri heppilegust fyrir landið.

Forsætisráðherra lagði á það áherslu að Ísland ætti að nýta sér að núverandi framkvæmdastjórn sambandsins situr a.m.k. út þetta ár. Hún sagði einnig mikilvægt að samhliða viðræðum yrði séð fyrir víðtækri upplýsingamiðlun til almennings svo að upplýst umræða gæti farið fram í þjóðfélaginu, bæði út frá þröngu og víðu sjónarhorni. Ekki mætti gleyma að ræða um hlutina út frá heildarhagsmunum atvinnuveganna og þjóðarbúsins alls. Hún sagði því brýnt að upplýsingastarfið tækist vel til.

Hún sagði að þeir sem væru fylgjandi aðild yrðu að gera grein fyrir því með hvaða hætti aðild að sambandinu tryggði efnahagslegt og pólítískt öryggi landsins og að þeir sem væru andvígir aðild yrðu að útskýra með hvaða hætti þeir vilji tryggja hið sama.

Þá sagði Jóhanna ljóst að þjóðin myndi eiga síðasta orðið og ákvörðunarréttinn í málinu þegar og ef aðildarsamningur liggur fyrir. Hlyti hann samþykki þjóðarinnar þyrfti að breyta stjórnarskrá og þá stjórnarskrárbreytingu þyrfti að leggja undir atkvæði þjóðarinnar.

Loks sagði hún að vanda þyrfti allan undirbúning fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur og að hún teldi ekki raunhæft að rjúka í þjóðaratkvæðagreiðslu á næstu vikum um hvort fara eigi út í aðildarviðræður við ESB. Hún teldi að fólk þyrfti að vita hvað sé í boði til að geta tekið afstöðu. Deildar meiningar væru um hvað Íslandi kunni að bjóðast hjá ESB og aðildaviðræður væru eina leiðin til að finna út úr því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert