Framtíð unga fólksins utan Íslands

Dagens Industri segir unga fólkið á Íslandi ekki bjartsýnt á …
Dagens Industri segir unga fólkið á Íslandi ekki bjartsýnt á framtíðina. Golli

Unga fólkið yfirgefur Ísland, segir í grein í sænska dagblaðinu Dagens Industri. Þar er rætt við unga Íslendinga sem hafa takmarkaða trú á framtíðinni innan íslensku landsteinanna.  

Þegar efnahagskreppan skall á Íslandi með fullum krafti sl. haust varð samfélagið nánast sem lamað, segir í greininni. Fjölmargt ungt fólk, sem hefur möguleika á því, velti því nú fyrir sér að yfirgefa landið til að vinna eða nema erlendis.

Í greininni er rætt við hinn 24 ára gamla Björn Magnús Stefánsson sem hyggst hefja nám við Chalmers háskólann í Gautaborg í haust, en undanfarin fjögur ár nam hann verkfræði í Danmörku.

Honum hugnast ekki að fara aftur til Íslands að loknu náminu, segir í greininni. „Kannski kem ég aftur þegar efnahagurinn er orðinn betri og það verður möguleiki á að fá góða vinnu hérna. En í bili er framtíð mín utan Íslands."

Björn Magnús segir fjölmarga Íslendinga af sinni kynslóð hafa flust til að fá vinnu og hann segir að íslenskir vinir sínir úr skólanum í Danmörku ætli ekki að koma aftur þegar þeir hafa lokið sínu námi. Síðasta árið hafi sett mark sitt á framtíðartrú landans, sem sé ekki jafn bjartsýnn og áður. „Áður gerði maður áætlanir fram í tímann. Núna reynir maður bara að bjarga sér og sínum í bili."

Einnig er rætt við Björk Þorgrímsdóttur, 21 árs heimspekinema sem er mjög tvístígandi yfir framtíð sinni á landinu. Annars vegar veltir hún því fyrir sér að flytja burt en hins vegar vil hún vera og berjast fyrir réttlátara Íslandi.

Þá er einnig rætt við Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og aðalritara í Norræna ráðherraráðinu. Hann segir það valda áhyggjum að ungir Íslendingar líti framtíðina í landinu dökkum augum en hefur trú á því að ástandið muni breytast, jafnvel á næstu tveimur árum.

Hann segist þó skilja að fólk flytjist til annarra landa í þeirri von að fá þar vinnu. „Það er betra að hafa vinnu í Danmörku eða Svíþjóð en að sitja atvinnulaus heima á Íslandi," er haft eftir honum.

Dagens Industri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert