Bóluefni á leið til Íslands

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að áhættuhópar verði skilgreindir fyrir bóluefni …
Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að áhættuhópar verði skilgreindir fyrir bóluefni gegn svínaflensu hérlendis. Ásdís Ásgeirsdóttir

Landlæknisembættið hefur pantað 300 þúsund skammta af bóluefni gegn svínaflensuveirunni H1N1 og er von á bóluefninu til landsins með haustinu. Skammtarnir duga til að bólusetja hálfa þjóðina en kostnaður hleypur á hundruð milljónum.

Að sögn Haraldar Briem sóttvarnalæknis hefur þetta verið lengi í undirbúningi. „Það var gerður framvirkur kaupsamningur við GlaxoSmithKline um kaup á bóluefni gegn þessum faraldri. Það þýðir það að þegar bóluefnisframleiðslan hefst eins og hún er að gera núna, þá erum við í forgangi og við erum að vonast til að fá bóluefnið í september eða október."

Haraldur býst við því að megnið af því bóluefni sem hægt verður að fá fyrsta kastið komi til landsins fyrir áramótin. „Við gerum ráð fyrir að geta keypt allt að 300 þúsund skammta af bóluefni," en bólusetja þarf tvisvar svo að efnið virki sem skyldi, svo 300 þúsund skammtar duga fyrir hálfa þjóðina. 

„Þegar bóluefnið kemur gerum við ráð fyrir að margir verði þegar búnir að fá flensuna. Við ætlum því að einbeita okkur fyrst og fremst að áhættuhópum, eins og þeir verða skilgreindir þegar þetta kemur. Þetta verður þá fyrir þann helming þjóðarinnar sem við höfum bóluefni fyrir. En svo höfum við auðvitað inflúensulyf líka, eins og Tamiflu og Relenza."

Haraldur segir verið að endurskilgreina hverjir teljist vera í áhættuhópum. „Venjulega mælumst við til þess að allir sem eru komnir yfir sextugt nýti sér hina árstíðabundnu bólusetningu. Nú kann þetta að breytast. Það getur verið að við leggjum áherslu á að yngra fólkið láti bólusetja sig því það sýnir sig að þeir sem eru yfir sextugt virðast einhvern tíman á árum áður hafa komist í kynni við inflúensu sem líkist þessari. Þannig virðist eldra fólkið vera svolítið varið, eins og var t.d. í Spænsku veikinni."

Nokkuð er síðan kaupin voru undirbúin en nú hefur Landlæknisembættið fengið tilkynningu um að framleiðsla bóluefnisins sé að fara í gang, og Íslendingar geti búist við að fá fyrstu skammtana í september, október ef vel gengur.

Kostnaðurinn við kaupin er talsverður að Haraldar sögn. „Það eru einhver hundruð milljóna sem fara í þetta, það fer eftir gengi og öðru þegar þar að kemur."

Haraldur segir reiknað með að svínaflensan muni breytast í venjubundna inflúensu síðar meir og þá verði samið um kaup á bóluefninu á hverju ári þar eftir. „Og það eru möguleikar hjá okkur að fá meira bóluefni eftir áramótin ef þörf verður á því."

Inntur eftir því hvers vegna aðeins er keypt bóluefni fyrir hálfa þjóðina en ekki alla eins og gert er bæði í Noregi og Bretlandi segir Haraldur: „Við reynum að vera hóflegir í þessu. Við kaupum um 60 þúsund skammta af bóluefni á hverju ári og náum nú ekki að koma þeim út. En við höfum alltaf hugsað okkur að þegar bóluefnið kemur hafi einhver hluti fengið veikina og við ætlum að einbeita okkur að hinum, sem við höldum að þurfi mest á þessu að halda. Þessu fylgir verulegur kostnaður svo þetta er alltaf matsatriði, þótt mannslífin séu vissulega það fyrsta sem við hugsum um. En það að bólusetja helming þjóðar er gríðarlega mikil bólusetning og myndu örugglega hafa veruleg áhrif til að draga úr faraldrinum.“

Hingað til hafa fjögur tilfelli svínaflensu greinst hér á landi. Af þeim smituðust þrír í útlöndum en sá fjórði smitaðist á Íslandi af einum hina þriggja. Flensueinkennin hérlendis hafa verið misjöfn, allt frá því að vera nokkuð áþekk inflúensueinkennum með þeim óþægindum sem þeim fylgja og í að vera afar væg.

„Við sjáum hins vegar að inflúensan er á miklu skriði núna í Bretlandi og á Spáni og víðar í Evrópu þannig að það er mjög líklegt að við eigum eftir að sjá fleiri tilfelli þegar líða tekur á sumarið," segir Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert