Skynsöm þjóð fellir vondan samning

Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins, vill ströng skilyrði í ESB samningum …
Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins, vill ströng skilyrði í ESB samningum varðandi sjávarútveginn. Sverrir Vilhelmsson

„Við munum leggjast af afli gegn öllum samningum sem ekki fela í sér full yfirráð yfir auðlindunum og samningsrétt í deilistofnum," segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, inntur eftir viðbrögðum við þeirri niðurstöðu Alþingis að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd.

Sævar vísar til samþykktar Sjómannasambandsins frá síðasta hausti. „Við höfum lagst gegn aðild að bandalaginu en í sjálfu sér ekki gegn aðildarviðræðum." Hins vegar geri sambandið kröfu um að ákveðin skilyrði, er varða sjávarútveginn verði uppfyllt áður en gengið er til samninga. Auk ofangreindra atriða nefnir hann heimild til hvalveiða. „Þetta er það sem við höfum lagt höfuðáherslu á að verja út í eitt. Verði þessi mál ekki að fullu á íslenskum höndum munum við leggjast alfarið gegn öllum samningum."

Hann segir sambandið hafa mildast í afstöðunni gagnvart aðildarviðræðunum sjálfum. „Þessi umræða getur ekki gengið endalaust, það verður bara að fara í samninginn og leggja svo samninginn í dóm þjóðarinnar."

Sævar telur fullvíst að þjóðin verði sammála Sjómannasambandinu í þeim skilyrðum sem þurfi að uppfylla til að samningurinn geti talist viðunandi. Náist þau ekki fram í samningnum sé einboðið að þjóðin muni fella hann. „Ég veit að þetta er skynsöm þjóð – þetta er okkar stærsta auðlind og við hljótum að verja hana út í eitt, það finnst mér alveg sjálfgefið."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert