Bjarni: Óheppilegt að ekki ríkir einhugur í forystunni

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að fullur trúnaður og traust ríki milli hans og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns flokksins. Hann segir óheppilegt að ekki ríki einhugur í forystu flokksins og vísar þar til þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður flokksins, sat hjá við atkvæðagreiðslu um Evrópumálin í gær, þvert á flokkslínur. Hann segir stöðu hennar þó ekki hafa veikst. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Miðstjórnarfundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn fyrr í dag.

Líkt og fram kom í fréttskýringu Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag þykir pólitísk staða Þorgerðar Katrínar  hafa veikst til muna í gær, þegar hún ákvað að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um ESB-aðildarumsókn.

Jákvæð afstaða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur til Evrópusambandsaðildar hefur verið kunn, en það mun, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, samt sem áður hafa komið á óvart að varaformaður flokksins stóð ekki með formanni Sjálfstæðisflokksins og öðrum þingmönnum við atkvæðagreiðsluna.

Mikil reiði er meðal margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í garð Þorgerðar Katrínar og í samtölum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins í gær kom ítrekað fram það sjónarmið, að þingmenn ættu bágt með að sjá að formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins gætu átt heilt og gott samstarf í forystu flokksins, eftir að Þorgerður Katrín ákvað hjásetu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert