Kyrrsettu tjaldvagninn

Frá eftirliti á Suðurlandsvegi síðdegis
Frá eftirliti á Suðurlandsvegi síðdegis mbl.is/júlíus

Lögreglan kyrrsetti síðdegis tjaldvagn á Suðurlandsvegi þar sem hann var of þungur fyrir bílinn sem dró vagninn. Sérstöku átaki lögreglu, Umferðarstofu, Rannsóknarnefndar umferðarslysa og umferðareftirlits Vegagerðarinnar er beint að aftanívögnum.

„Við erum að skoða kerrur, fellihýsi, tjaldvagna og hjólhýsi en það rekur ýmislegt annað á okkar fjörur, t.d. bátakerrur, vinnulyftur og fleira. Aftanívagnarnir eru stundum of þungir miðað við dráttargetu og hemlagetu ökutækjanna. Ef þeir fara yfir ákveðin mörk er ekki um annað að gera en kyrrsetja aftanívagninn. Sama á raunar við um ökutæki sem ekki eru í viðunandi ástandi,“ sagði Ágúst Mogensen, forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðarslysa í samtali við mbl.is

Ágúst var við eftirlit ásamt lögreglu á Suðurlandsvegi. Nýlega voru aftanívagnar gerðir skoðunarskyldir og segir Ágúst að menn séu að feta sig áfram með það hvernig standa beri að eftirliti með aftanívögnum á vegum úti. Búið er að stöðva nokkra tugi ökutækja með aftanívagna.

„Ég er ekki viss um að menn viti nákvæmlega hversu þung fellihýsin þeirra eru. Fellihýsi sem er 750 kíló að þyngd er fljótt að fara langt yfir mörkin þegar búið er að hlaða ferðabúnaði í það. Þetta er fyrst og fremst athugunarleysi og það er einmitt tilgangurinn með okkar eftirliti, að vekja athygli ökumanna á þessu,“ segir Ágúst Mogensen.

Hann segir fulla ástæðu til að hafa gott eftirlit með aftanívögnum.

„Rannsóknarnefndin hefur rannsakað nokkur slys þar sem kerrur eða aftanívagnar komu við sögu, voru jafnvel orsakavaldur slyssins. Menn taka ábendingum okkar og athugasemdum vel, viðmót ökumanna er gott. Það er enginn fúkyrðaflaumur hér,“ sagði Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðaslysa á Suðurlandsvegi.

Hann hafði vart sleppt orðinu við blaðamann þegar ökumanni var gert að losa tjaldvagn aftan úr bíl sínum þar sem dráttargeta bílsins var ekki nægileg. Ökumaðurinn hlýddi fyrirmælum lögreglu og sneri til baka í borgina, væntanlega til að sækja bíl sem hafði viðeigandi dráttargetu og hemlagetu.

Umferð hefur verið þétt út úr borginni en gengið greiðlega að sögn lögreglu.

mbl.is/Júlíus
mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert