Fréttaskýring: Þeistareykir þrá kaupanda að orkunni

Þeistareykir
Þeistareykir mbl.is/Birkir Fanndal

Ný staða er komin upp hjá orkufyrirtækinu Þeistareykjum, eftir að Norðurorka ákvað í vikunni að skoða möguleika á að selja þriðjungshlut sinn í félaginu. Aðrir eigendur eru Landsvirkjun og Orkuveita Húsavíkur, með um þriðjungshlut hvor, og Þingeyjarsveit á rúm 4%.

Félagið var stofnað fyrir um tíu árum til að kanna möguleika á jarðvarmavinnslu á Þeistareykjasvæðinu í Þingeyjarsýslu. Félagið var fyrstu árin alfarið í eigu heimamanna en árið 2005 kom Landsvirkjun inn sem meðeigandi. Boraðar hafa verið alls sex rannsóknarholur sem jafnframt eru nothæfar sem vinnsluholur. Geta þær gefið gufuafl til framleiðslu á allt að 45 MW af raforku.

Svæðið í heild sinni er talið geta gefið af sér allt að 200 MW en yfirborðsrannsóknir hafa gefið til kynna að jarðhitasvæðið sé mun stærra en áður hefur verið talið, eða um 45 ferkílómetrar. Orkan frá Þeistareykjum hefur til þessa einkum verið hugsuð fyrir mögulegt álver Alcoa á Bakka, en þau áform hafa sem kunnugt er verið í biðstöðu. Gildandi viljayfirlýsing um álversverkefnið rennur út í haust og óvíst hvort hún verður framlengd. Hafa þreifingar staðið yfir um möguleg önnur verkefni til að selja orkuna frá Þeistareykjum en án árangurs.

Norðurorka, sem er í 98% eigu Akureyrarbæjar, telur sig ekki hafa fjárhagslega burði til að halda hlut sínum til lengri tíma og segja má að aðrir eigendur séu ekki ýkja burðugir til að leggja fram aukin framlög til rannsókna, ekki síst á meðan efnahagsleg óvissa ríkir og orkukaupandi fæst ekki svo auðveldlega.

Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, segir nauðsynlegt að fá fjársterka aðila að fyrirtækinu, til greina komi bæði innlendir sem erlendir fjárfestar en hluturinn verði ekki seldur nema fyrir ásættanlegt verð. Góður tími verður tekinn í söluferlið, að sögn Franz, eða allt frá fjórum upp í átta mánuði. Hann segir Norðurorku samt sem áður hafa fulla trú á að nýting orku frá Þeistareykjum hefjist á næstu árum.

Kaupir Geysir Green?

Fjármagn liggur ekki á lausu hér heima fyrir en meðal líklegra kaupenda hefur Geysir Green Energy m.a. verið nefnt til sögunnar. Þegar haft var samband við Ásgeir Margeirsson, forstjóra Geysis Green, vildi hann ekki útiloka að þetta yrði skoðað en önnur og stærri mál væru nú ofar í forgangsröðinni, og vísaði þar m.a. til kaupanna í HS Orku.

Orkuveita Húsavíkur (OH) er alfarið í eigu sveitarfélagsins Norðurþings. Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri er stjórnarformaður Þeistareykja. Hann segir það koma vel til greina að OH nýti sér forkaupsréttinn en það skýrist á næstu dögum hvað gert verður. „Við höfum lagt mikið upp úr því að allir hluthafar stígi í takt og séu sammála. Nú er sú staða komin upp að einn hluthafinn vill fara út og við verðum bara að bregðast við því. Mikilvægast er að klára þetta verkefni.“

Hjá Landsvirkjun fengust þau svör að málið yrði skoðað ef Norðurorku tækist að fá kaupanda að hlutnum, þ.e. hvort forkaupsrétturinn yrði nýttur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert