Endurfjármögnun eigi síðar en 14. ágúst

Endurfjármögnun íslensku bankanna fer fram eigi síðar en 14. ágúst nk. og ljóst er að um töluvert minni kostnaðar verður að ræða fyrir skattgreiðendur en upphaflega var áætlað. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi út núna klukkan 6, um samkomulag stjórnvalda við skilanefndir bankanna þriggja.

Tilkynningin er svohljóðandi, í heild: 

„Undanfarna daga og vikur hafa farið fram viðræður milli stjórnvalda og skilanefnda gömlu bankanna, fyrir hönd kröfuhafa þeirra, um uppgjör vegna skiptingar eigna milli gömlu og nýju bankanna. Viðræðurnar snérust einkum um tvennt; sanngjarnt mat á eignum, og með hvaða hætti uppgjörið færi fram.

Síðastliðinn föstudag náðu samningsaðilar mikilvægum niðurstöðum í viðræðum sínum og hafa þeir undirritað samkomulag þar um. Niðurstöðurnar fela í sér og leiða til eftirfarandi:

... að endurfjármögnun bankanna fari fram eigi síðar en 14. ágúst nk.

... að skilanefndir Glitnis og Kaupþings, að undangengnu samráði við kröfuhafa, eigi þess kost að eignast meginhluta hlutafjár í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi,

... að samkomulagi er náð við kröfuhafa gamla Landsbankans um hvernig staðið verður að því að ljúka uppgjöri milli hins gamla og nýja Landsbanka, en það samkomulag er í eðli sínu all frábrugðið hinum tveimur, þar sem samsetning kröfuhafahópsins er önnur en í hinum bönkunum.

... að töluvert minni kostnaðar fyrir skattgreiðendur en upphaflega var áætlað.

Allir samningar eru gerðir með fyrirvara um áskilið samráð við kröfuhafa og einnig með fyrirvara um samþykki FME sem skera þarf úr um hvort það sem gert er samrýmist lagakröfum um fjármögnun, styrk bankanna og stöðu eigenda á hverjum tíma.

Allar innstæður viðskiptabanka sem hafa staðfestu á Íslandi eru tryggðar samkvæmt lögum um Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Ekkert breytist hvað það varðar, hvorki þó bankar fari úr eigu ríkisins, né heldur þó þeir verði að hluta til í eigu erlendra fyrirtækja eða einstaklinga.“

Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og aðalsamningamaður stjórnvalda ásamt fulltrúum skilanefnda gömlu bankanna munu kynna samkomulagið ýtarlega og sitja fyrir svörum á blaðamannafundi sem hefst í Þjóðmenningarhúsinu klukkan 10:30.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert