6 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot þar sem það þótti sannað að hann hefði haft kynmök við brotaþola vitandi að hún teldi hann vera annan mann. Var honum gert að greiða henni 600 þúsund í bætur og 1.764.330 krónur í sakarkostnað.

Maðurinn sem er fertugur Bandaríkjamaður var ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart stúlku á Hótel Borg í maí sl. en hún taldi að um annan mann væri að ræða sem hún hafði átt samræði við skömmu áður.

Stúlkan sagði lögreglu frá því að hún hefði farið ásamt vinkonum sínum að skemmta sér á bar við hliðina á Hótel Borg. Hefði hún hitt þar tvo karlmenn og þrjár konur úr hópi útlendinga sem þar hefði verið staddur. Hefðu mál þróast þannig að hún hefði farið með öðrum mannanna upp á hótelherbergi hans. Hefðu þau haft kynmök og hún sofnað eftir það. Hún hefði svo vaknað stuttu síðar við að maður væri að hafa við hana kynmök. Hefði hún haldið að það væri sá maður sem hún hafði farið með upp á herbergið en uppgötvað fljótlega að svo var ekki. Hefði hún þá orðið mjög æst og öskrað. Hefði hún komist inn á baðherbergi og læst þar að sér. Hefði hún svo kíkt fram stuttu síðar, þegar hún heyrði ekkert hljóð, og maðurinn þá verið farinn á brott.

Maðurinn sem var dæmdur fyrir kynferðisbrotið neitaði í fyrstu að hafa haft kynmök við stúlkuna en síðar sagði hann að kunningi hans, sem hafði fyrst kynmök við stúlkuna hafi sagt honum að stúlkan vildi einnig hafa mök við hann.

Sagði hann að kynmökin hafi verið með vilja hennar og hún hafi vitað allan tímann að um annan mann væri að ræða.

Félagi mannsins neitaði því hins vegar að hafa sagt að stúlkan vildi hafa kynmök við hinn manninn og var ekki dreginn efi á þann framburð hans.

Þótti framburður stúlkunnar á því sem gerðist, og þeirri villu sem hún kveðst hafa staðið í um að maður sem kom upp í rúmið til hennar hefði verið sá sami og hvíldi hjá henni skömmu áður, hafa frá upphafi verið mjög á einn veg og að mati dómsins mjög trúverðugar. Hins vegar var framburður þess sem dæmdur var mjög reikull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert