Ekki komin niðurstaða

Sirtaki siglir út Eskifjörð
Sirtaki siglir út Eskifjörð mbl.is/Helgi Garðarsson

 Dómari í Héraðsdómi Reykjavíkur hefur ekki enn úrskurðað hvort frávísunarkrafa lögfræðings meints höfuðpaurs í Papeyjarmálinu nái fram að ganga. Málið var á dagskrá héraðsdóms í morgun. Ekki eru til eldri dómar sem hægt er að vísa í og því getur niðurstaðan orðið fordæmisgefandi. Hinn meinti höfuðpaur var sá eini af þeim sem ákærður er í málinu sem mætti í dómssalinn í dag. Hann nýtti sér ekki rétt til þess að taka til máls í morgun. 

Saksóknari telur að það séu almannahagsmunir að maðurinn verði dæmdur á Íslandi og vísar til 7. gr. almennra hegningarlaga þar sem ætlunin hafi verið að dreifa fíkniefnunum á Íslandi. 

Aðalmeðferðinni  í hinu svonefnda Papeyjarmáli, sem fara átti fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, var óvænt frestað þegar lögfræðingur meints höfuðpaurs fór fram á frávísun málsins þar sem dómstóllinn hafi ekki refsilögsögu yfir skjólstæðingi hans sem er hollenskur. Lögreglan lagði sem kunnugt er hald á rúmlega 100 kíló af fíkniefnum á Austurlandi í apríl sl. Um er að ræða amfetamín, marijúana, hass og e-töflur. Talið er að fíkniefnin hafi verið flutt hingað með seglskútunni Sirtaki, en för skútunnar var stöðvuð djúpt út af SA-landi eftir mikla eftirför.

Í greinargerð Ólafs Arnar Svanssonar, hrl. og lögmanns Hollendingsins, er á það bent að refsilögsaga geti byggst á grundvelli ýmist landsvæðis, þjóðernis, öryggissjónarmiða, allsherjarlögsögu eða þjóðernis fórnarlambs. Að mati Ólafs nær ekkert þessara fimm atriða til skjólstæðings hans, m.a. þar sem hann sé hollenskur ríkisborgari og hafi aldrei verið búsettur á Íslandi.

„Reglur þjóðarréttar leiða einvörðungu til þess að réttað verði yfir honum í slíku máli annaðhvort í Belgíu, á grundvelli reglna um lögsögu fánaríkis [en Hollendingurinn sigldi undir fána belgíska ríkisins þegar hann var handtekinn], eða í Hollandi, á grundvelli reglna þjóðarréttar um þjóðerni,“ segir m.a. í greinargerðinni. Á það er bent að samkvæmt Hafréttarsamningi SÞ hafi sú skylda hvílt á íslenska ríkinu að leita samþykkis fánaríkis áður en gripið er til aðgerða gegn skipum sem grunuð eru um að flytja ólöglega fíkniefni á hafinu, en slíkt samþykki lá ekki fyrir þegar för Hollendingsins var stöðvuð. Ólafur gerir jafnframt athugasemd við handtökuna og telur hana með öllu ólögmæta þar sem hún hafi farið fram utan landhelgi Íslands í kjölfar ólögmætrar óslitinnar eftirfarar.

Ef dómari samþykkir frávísunarkröfuna hefur saksóknari heimild til þess að kæra ákvörðun dómara til Hæstaréttar. Ef dómari hins vegar fellst ekki á frávísunarkröfuna þá mun aðalmeðferð í málinu væntanlega fara fram í byrjun næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert