„Erfitt en verður að leysast"

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir í viðtali við Financial Times í dag að hann vonist til þess að þingheimur geri sér grein fyrir því hversu mikilvægt sé fyrir Íslendinga að ganga frá Icesave-samkomulaginu til þess að byggja upp efnahag landsins á ný.

Hann segir málið erfitt mál en á sama tíma verður að leysa það. Hann neitar að upplýsa hvað ríkisstjórnin muni gera ef Alþingi hafnar samkomulaginu. 

Segja ekki meirihluta fyrir Icesave-samkomulaginu á Alþingi

  Í hollenska dagblaðinu Volkskrant í dag kemur fram að ekki sé meirihluti með samkomulaginu á Alþingi og niðustaðan sé í höndum þriggja þingmanna VG sem séu á móti.

Að sögn Steingríms er gríðarlega mikilvægt að byggja upp alþjóðlegt traust á Íslandi en andstæðingar Icesave segja samninginn of kostnaðarsaman.

Enn kemur til greina  að greiða atkvæði um samninginn síðar í vikunni en einhverjir þingmenn þrýsta á að atkvæðagreiðslunni verði frestað. 

Í viðtalinu við FT er einnig fjallað um samkomulagið milli stjórnvalda, skilanefnda bankanna og kröfuhafa þeirra. Segir Steingrímur samkomulagið stóran áfanga í áttina að endurreisn Íslands. Ýjar hann að því að létt verði á stjórn fjármála bankanna en ekki sé möguleiki á að bankarnir fái að snúa sér aftur að óeðlilega mikilli útþenslu á alþjóðlegum mörkuðum. Í framtíðinni verði stærð bankanna í samræmi við stærð hagkerfisins. Þeirra helsta hlutverk verði að veita eðlilegu hagkerfi þjónustu.

Auk viðtalsins við Steingrím er einnig fjallað um Ísland í dálkinum Lex í FT í dag.

Í hollenska dagblaðinu Volkskrant í dag kemur fram að naumur meirihluti Alþingis sé á móti því að greiða lánið sem Hollendingar veita Íslendingum til þess að standa við Icesave-samkomulagið. Í fréttinni er farið yfir hvað fellst í samkomulaginu og til hve margra ára það er. 

En nú hóti Alþingi því að koma í veg fyrir samkomulagið. Á sama tíma hefur þetta ekki áhrif á stöðu innistæðueigenda þar sem þeir hafi fengið innistæður sínar greiddar þá sitji ríkissjóður Hollands og Bretlands í súpunni. 

Segir blaðið að niðurstaða málsins sé í höndum þriggja þingmanna VG sem séu á móti samkomulaginu.

Í viðtali Volkskrant við Lilju Mósesdóttur, þingmann VG, kemur fram að hún hafi verið kjörin á þing sem hagfræðingur. Það getur verið að viljum ná samkomulagi en víð höfum ekki efni á því.

Hollenska fjármálaráðuneytið neitaði að tjá sig um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert